24.06.19

Hitabylgja í Evrópu og lúsmý á Íslandi

Hitabylgju er spáð á meginlandi Evrópu næstu daga og vikur. Í Frakklandi eru líkur á að hitatölur fari yfir 35 gráður víða, og jafnvel 40 gráður í París seinna í vikunni. Svipuðu hitafari er spáð í Þýskalandi, Sviss, Belgíu og á Spáni. Í þessum löndum eru líklegt að meðalhiti verði í kringum 32 gráður.

Þeir sem hafa hug á að leggja land undir fót, eða eru staddir á meginlandi Evrópu, ættu að hafa hugfast mikilvægi þess að drekka vel af vökva. Í miklum lofthita eykst svitamyndum og vökvatap verður mikið og því meiri hætta á ofþornun. Aldraðir og ung börn eru í aukinni áhættu. Áfengi og hiti eru slæm blanda, enda er alkóhól þvagmyndandi og getur því aukið enn á vökvatap frá sól og hita.

Í miklum hita er jafnframt mikilvægt að fara sér hægt, leita í skugga og halda sig innandyra þegar hitastigið nær hæstu hæðum yfir daginn. Mikilvægt er að muna eftir sólarvörn og sólhatti þegar sól er sterk.

Lúsmý
Það hefur að líkindum ekki farið fram hjá neinum að lúsmý hefur verið óvenju áberandi það sem af er sumri. Lúsmý leggst einkum á fólk í svefni og þarf lognstillur til að athafna sig. Náttúrufræðistofnun hefur bent á að vifta, sem heldur lofti á hreyfingu í svefnherberbergi, kunni að hjálpa. Ráðlegt er að hafa glugga lokaða og sofa í náttfötum. Að auki getur þéttriðið flugnanet í glugga komið sér vel í baráttunni við varginn.

Skordýrabit valda oft rauðum hnúðum undir húðinni með tilheyrandi kláða og óþægindum. Mikilvægt er að klóra ekki í húðina þar sem það getur aukið líkur á sýkingum. Stutt kæling dregur úr kláða. Mild sterakrem draga jafnframt úr kláða og óþægindum en þau fást án lyfseðils í apótekum. Þeir sem fá ofnæmisviðbrögð, þar sem stærra svæði á húðinni í kringum bitið bólgið og aumt, geta tekið ofnæmislyf eins og lóritín eða histasín en þau fást einnig í apótekum án lyfseðils.

Skynsamlegt er að leita á heilsugæsluna ef einkenni byrja ekki að lagast á nokkrum dögum, eða ef útbrot stækka eða bólgna meira. Einnig ef bit eru í munni, hálsi, eða nálægt augum; ef þú færð flensueinkenni og bólgna eitla.

Ef alvarlegri einkenni koma fram, eins og öndunarerfiðleikar, uppköst, hraður hjartsláttur, eða sviði og meðvitundarskerðing, kann að vera um bráðaofnæmi að ræða og þá skal leita strax á bráðamóttöku eða hringja í 112.

Ítarlegri upplýsingar um viðbrögð við biti má nálgast á vef Heilsuveru  

Jafnframt má lesa nánar um lúsmý á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands  og nálgast upplýsingar um lyf við skordýrabiti í lausasölu á vef Lyfjastofnunar.

 

Landlæknir

<< Til baka