17.05.19

Bjarni Pálsson, fæddur 17. maí 1719. Minning.

Sjá stærri mynd

Alma D. Möller, landlæknir


Í dag eru liðin 300 ár frá því að merkismaðurinn og fyrsti landlæknirinn, Bjarni Pálsson fæddist og er hans minnst af því tilefni.

Bjarni fæddist á Upsum í Svarfaðardalshreppi þann 17. maí 1719 og var einn 16 barna hjónanna Sigríðar Ásmundsdóttur húsfreyju og Páls Bjarnasonar prests sem þjónaði á Upsum og einnig á Hvanneyri á Siglufirði. Bjarni var svo gæfusamur að fá að feta menntaveginn en hann fór aðeins 15 ára að aldri í Hólaskóla. Hann var sagður starfsamur og framtakssamur en þótti slá slöku við námið framan af þótt hann færi þá þegar að „hnýsast í lækningar1. Hann útskrifaðist úr Hólaskóla 11 árum síðar, árið 1746.

Bjarni hélt utan til Kaupmannahafnar árið 1747, þar sem hann nam náttúrufræði og læknisfræði og stundaði nú námið af kappi. Hlé varð á náminu þegar hann var sendur í rannsóknarferðir til Íslands, ásamt Eggert Ólafssyni, til að safna náttúrugripum og handritum eins og frægt varð, fyrst 1750 og svo aftur 1752-1757. Í þessum ferðum sinnti hann jafnframt lækningum og streymdu að honum sjúklingar hvar sem hann fór. Hann lauk síðan fullnaðarprófi í læknisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1759 með hinum besta vitnisburði og varð þar með fyrsti sérmenntaði læknir landsins. Guðmundur Hannesson ritaði í Læknablaðið fyrir 100 árum: „Með honum hófst hér íslensk læknastétt og er oss því skylt að vita nokkur deili á þessum föður stéttar vorrar1.

 Bjarni var skipaður í embætti landlæknis með konungsúrskurði hinn 18. mars 1760 og fóru þá heilbrigðismál á Íslandi að taka á sig mynd. Hann bjó á Bessastöðum fyrstu árin en aðsetur hins fyrsta landlæknis varð síðan á Seltjarnarnesi frá árinu 1763 þar sem hann byggði sér reisulegt hús, Nesstofu við Seltjörn. Upphaflega átti Nesstofa að vera "bindingsverks" hús en Bjarni fékk því til leiðar að það var byggt úr steini sem tekinn var úr Valhúsinu. Þetta sama ár var hafin bygging annars merks húss sem enn stendur, Bessastaðastofu. Teikningar húsanna gerði danskur húsagerðarmeistari, Jakob Fortling 2. Nesstofa stendur enn sem traustur minnisvarði um stórhug og framsýni Bjarna. Bjarni kvæntist Rannveigu Skúladóttur fógeta árið 1763 og stóð hún eins og klettur við hlið hans alla tíð. Þau eignuðust sex börn.

Hinum fyrsta landlækni var ætlaður ærinn starfi samkvæmt erindisbréfi, dags. 19. maí 1760, þar sem honum var falin umsjón með heilbrigðismálum landsins, m.a. að veita sjúkum landsmönnum læknishjálp, ríkum sem fátækum. Þá átti hann að kenna mönnum lækningar í því skyni að útskrifa þá sem fjórðungslækna á Íslandi. Landlæknir átti einnig að uppfræða yfirsetukonur, vera lyfsali og sjá um sóttvarnir.

Bjarni þótti hafa góða þekkingu á læknisfræði samkvæmt mælikvarða þess tíma og var duglegur, hjálpfús og ósérhlífinn. Vitað er að hann hafði vald á fjölda læknisverka, skurðaðgerðum þar á meðal. Þá hefur það komið sér vel hve vanur hann var til ferðalaga þar sem landið allt lá undir. Segir í ævisögu hans að „trautt héldu honum veður, sjór eða úrtölur, er hans var vitjað til veikra3. Það var til þess tekið hve vel hann útskýrði fyrir sjúklingum sínum og gaf þeim skrifaðar reglur, m.a. um hvernig nota skyldi lyfin og hvað gæti komið upp á við veikindin. Hann var fjölfróður og hafði áhuga á hverju því sem gæti komið að gagni við að „hefja land og lýð3, það hefur án efa verið fyrirmynd að lýðheilsustarfi okkar tíma. Eftir hann liggur fjöldi ritverka og er ferðabókin sem rituð var um ferðir þeirra Eggerts Ólafssonar árin 1752-1757, það frægasta.

En starfið hefur verið erfitt, ...“stritið, löng ferðalög, mótspyrna frá ýmsum hliðum, búskaparumstang og – örbirgð1. Það hefur mikið reynt á Bjarna að vera fyrst í stað eini læknirinn en þá bjuggu hér um 40 þúsund manns. En smám saman fjölgaði læknum og útskrifuðust fjórir í tíð hans. Hann stóð vörð um vandaða menntun lækna en námið tók fimm til átta ár. Biskupar vildu hinsvegar láta hann kenna prestsefnum í eitt til tvö ár og gera þannig prestana að læknum. Það tók Bjarni ekki í mál, vildi koma upp vel lærðum læknum en ekki skottulæknum (með fullri virðingu fyrir prestum). Eitt var það sem Bjarni hafði áform um, en það var að fá byggðan Landspítala. Það tókst honum ekki og hefur það reyndar vafist fyrir mönnum allar götur síðan.

Bjarni var trúmaður og leitaði jafnan til kirkju þegar hann kom úr vitjunum, þakkaði guði þegar vel gekk en ákallaði hann um hjálp þegar miður gekk. Hann bjó við slæma heilsu á efri árum, þar kom meðal annars áfengi við sögu. Hann lést 8. september árið 1779, sextugur að aldri.

Eftirmæli eftir Bjarna eru þannig almennt að þar fór duglegur, samviskusamur og ósérhlífinn maður. Það hefur verið mikið lán fyrir landið að fá þennan vel menntaða mannkostamann til starfa og ljóst að heilbrigðismál voru á þeim tíma meiri áskorun en okkur nútímafólkið getur nokkru sinni grunað.

Bjarna Pálssonar verður minnst á Seltjarnarnesi næstkomandi sunnudag 19. maí. Sérstök kynning varðandi athöfnina mun birtast hér á síðunni.

Heimildir:

1. Guðmundur Hannesson (1919). Bjarni Pálsson, landlæknir. Nokkur minningarorð. Læknablaðið, 5. árg., 4-5 tbl.
2. Kristinn Magnússon (2006). Rannsókn undir Nesstofu. Þjóðminjasafnið.
3. Sveinn Pálsson (1800). Ævisaga Bjarna Pálssonar.

Ekki hefur varðveist mynd af Bjarna Pálssyni en hér fyrir ofan má sjá mynd af Nesstofu og mynd af undirskrift Bjarna sem finna má í Læknatalinu.

 

<< Til baka