07.05.19

Brjóstapúðar áfram til skoðunar

Embætti landlæknis og Lyfjastofnun fylgjast með alþjóðlegri umfjöllun um brjóstapúða af ákveðinni gerð, vegna tengsla þeirra við sjaldgæft eitilfrumukrabbamein (BIA-ALCL; breast implant-associated anaplastic large cell lymphoma). Púðarnir sem sjónir hafa einkum beinst að eru með hrjúfu yfirborði og framleiddir af lyfjafyrirtækinu Allergan. Hætt var að selja þessa púða í Evrópu í lok síðasta árs, líkt og fram kom í tilkynningu frá Lyfjastofnun í desember síðastliðnum.

Umræddir púðar voru notaðir hér á landi á árunum 2007 – 2015 en innflutningi þeirra var hætt um mitt ár 2015. Talið er að á þessu árabili hafi um 470 konur hérlendis fengið þessa tegund brjóstapúða ígrædda. Eitilfrumukrabbamein tengt brjóstapúðum er afar sjaldgæft og engin dæmi þess hérlendis.

Ekki er talin þörf á að grípa til sérstakra aðgerða vegna þeirra kvenna sem eru með þessa brjóstapúða. Um þetta eru alþjóðlegar stofnanir og sérfræðingar sammála í ljósi þess að meinið er sjaldgæft og einkenni þess afgerandi.

Franska lyfjastofnunin tilkynnti 4. apríl síðastliðinn að í Frakklandi megi ekki lengur nota tilteknar tegundir brjóstapúða með hrjúfu yfirborði af grófustu gerð. Aðrar þjóðir hafa ekki talið ástæðu til slíks banns, hvorki í Evrópu né annars staðar á Vesturlöndum. Púðarnir frá Allergan eru enn á markaði í löndum utan Evrópu, meðal annars í Bandaríkjunum, Ástralíu og Kanada. Íslensk heilbrigðisyfirvöld munu áfram fylgjast vel með faglegri umfjöllun heilbrigðisyfirvalda og eftirlitsaðila í Evrópu og víðar um þessi mál.

Vegna þessa máls hafa Embætti landlæknis og Lyfjastofnun tekið saman spurningar og svör með upplýsingum og fræðslu um eitilfrumukrabbamein tengt brjóstapúðum (BIA-ALCL).

Ítarefni:

 

Nánari upplýsingar veita

Alma D. Möller
landlæknir,
sími 5101900,
netfang: mottaka@landlaeknir.is


Rúna Hauksdóttir Hvannberg
forstjóri Lyfjastofnunar,
sími 5202100
netfang upplysingadeild@lyfjastofnun.is

 

<< Til baka