19.03.19

Úthlutun úr Lýðheilsusjóði 2019

 Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, úthlutaði í dag tæpum 90 milljónum króna í styrki úr Lýðheilsusjóði til 172 verkefna og rannsókna. Styrkt voru fjölbreytt verkefni um land allt, ætluð öllum aldurshópum. Sjá lista yfir verkefni og styrkþega. 

Við athöfnina kynnti auk þess Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis nýútkomið staðreyndablað um hvað virkar í tóbaks-, áfengis og vímuforvörnum í skólum .

Við úthlutun úr Lýðheilsusjóði er áhersla lögð á að styrkja aðgerðir sem miða m.a. að því að efla geðheilsu barna og fullorðinna, áfengis-, vímu- og tóbaksvarnir, forvarnir og kynheilbrigði. Við mat á umsóknum fyrir árið 2019 var einnig sérstaklega horft til verkefna sem styðja við minnihlutahópa, stuðla að jöfnuði til heilsu og tengjast nýsköpun á sviði forvarna og heilsueflingar.

 Ráðherra úthlutaði styrkjunum að fengnum tillögum stjórnar Lýðheilsusjóðs sem mat umsóknir út frá því hvernig þær falla að hlutverki sjóðsins. Áður höfðu fagráð Embættis landlæknis metið allar umsóknir sem bárust. Hlutverk Lýðheilsusjóðs er skilgreint í lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007 og lýðheilsustefnu heilbrigðisráðuneytisins.

Athöfin hófst með ávarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, þá flutti formaður Lýðheilsusjóðs, Kristín Heimisdóttir einnig ávarp. Bryndís Jóna Jónsdóttir frá Núvitundarsetrinu sagði frá verkefnunum sem hlotið hafa styrk úr sjóðnum og snúa að innleiðingu og þróun núvitundar í skólastarfi.

<< Til baka