11.03.19

Fleiri mislingatilfelli hafa ekki verið staðfest

Á samráðsfundi sóttvarnayfirvalda í morgun, mánudaginn 11.mars, kom fram að ekki hafa greinst ný tilfelli mislinga. Samtals hafa um 50 sýni verið send í greiningu á Landspítala og eru staðfest tilfelli 5 talsins. Áfram verður fylgst með stöðu mála.

Bólusetningarátak á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu vegna mislinga hefur gengið afar vel og um helgina voru um 500 manns bólusettir á Austurlandi og um 2500 á höfuðborgarsvæðinu. Von er á meira bóluefni til landsins um miðja þessa viku.

Áfram verður bólusetning í boði á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu fyrir forgangshópa en það eru:

  1. Allir sem eru óbólusettir og fæddir á bilinu 1. janúar 1970 – 1. september 2018 (6 mánaða – 49 ára)
  2. Þeir einstaklingar sem útsettir hafa verið fyrir mislingasmiti ásamt þeirra nánasta umgangshópi.

Staðsetning bólusetninga er auglýst á vef Heilbrigðisstofnunar Austurlands og á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Bólusetning fyrir aðra hópa verður auglýst um leið og hægt er. Í samvinnu við umdæmis- og svæðislækna sóttvarna er unnið að bólusetningaráætlun fyrir allt landið .

Frekari upplýsingar varðandi mislinga eru veittar á netspjalli heilsugæslunnar, www.heilsuvera.is og í síma 1700.

Sóttvarnalæknir
Mánudagur 11. mars 2019 kl. 10:50

<< Til baka