08.03.19

Bólusetningarátak á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu

Ákveðið hefur verið að grípa til ýtrustu varúðarráðstafana og bjóða upp á bólusetningu gegn mislingum á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu eftir að grunur vaknaði í gærkvöldi um fimmta mislingatilfellið. Sýni frá viðkomandi aðila hefur verið sent til rannsóknar og er niðurstöðu að vænta síðdegis í dag. Hinn sýkti komst í snertingu við þann aðila sem kom með flugi til Egilsstaða þann 15. febrúar og greindist síðar með mislinga.

Á fundi sóttvarnalæknis í morgun með Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og Landspítala (LSH) var tekin ákvörðun um að hvetja eftirtalda forgangshópa á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu til að þiggja bólusetningu við mislingum.

Forgangshópar eru:

  1. Allir sem eru óbólusettir og fæddir á bilinu 1. janúar 1970 – 1. september 2018 (6 mánaða – 49 ára).
  2. Þeir einstaklingar sem útsettir hafa verið fyrir mislingasmiti ásamt þeirra nánasta umgangshópi.

Þessir hópar eru hvattir til að mæta í bólusetningu sem fyrst, þ.e. frá og með deginum í dag.

Boðið verður upp á opnar bólusetningar strax um helgina á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu fyrir þessa hópa og eru staðsetningar auglýstar á heimasíðum Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Þeir einstaklingar sem hafa verið bólusettir eða hafa fengið mislinga þurfa ekki frekari bólusetningu.

Einstaklingar sem fæddir eru fyrir 1970 hafa langflestir fengið mislinga og eru því ekki í forgangi í bólusetningu. Einstaklingar sem eru með sögu um eina bólusetningu eru ekki í forgangi. Hægt verður að bjóða þeim bólusetningu síðar. Yngri en sex mánaða hafa ekki gagn af bólusetningu.

Almenningi er bent á að skoða bólusetningaskírteini sín varðandi skráðar bólusetningar. Einnig er hægt að hafa samband við netspjall heilsugæslunnar www.heilsuvera.is. Á vef Embættis landlæknis og heilsugæslunnar er einnig að finna upplýsingar.

Áfram eru veittar upplýsingar vegna mislinga í síma 1700.

Sjá spurningar og svör varðandi mislinga.

Sóttvarnalæknir hefur upplýst umdæmis- og svæðislækna sóttvarna um allt land um stöðuna og eru þeir í viðbragðsstöðu að hefja bólusetningarátak ef upp koma mislingar í öðrum landshlutum.

Sóttvarnalæknir
Föstudagur 8. mars 2019 kl. 12:00

<< Til baka