20.02.19

Flensur og aðrar pestir 7. vika 2019

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala
Í síðustu viku var inflúensa A staðfest hjá 21 einstaklingi, sjá einnig á vef veirufræðideildar Landspítala. Þar af greindust 15 með inflúensu A(H1N1)pdm09 og sex með inflúensu A(H3N2). Heildarfjöldi staðfestrar inflúensu A er því óbreyttur miðað við vikuna á undan, en nokkuð fleiri greindust með inflúensu A(H1N1)pdm09. Aðeins tveir hafa greinst með inflúensu af B-stofni það sem af er þessum vetri. Fólk á öllum aldri greinist með inflúensu A(H1N1)pdm09 og inflúensu A(H3N2). Alls 17 einstaklingar leituðu á Landspítala með staðfesta inflúensu, sem er svipað borið saman við undanfarna viku, en einungis fimm þeirra voru inniliggjandi.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum
Í viku 7 voru samtals 220 einstaklingar sem leituðu til heilsugæslunnar og á bráðamóttökur með inflúensulík einkenni sem er mikil aukning frá vikunni á undan, sjá mynd 1.

 Mynd 1

Staðan á meginlandi Evrópu
Inflúensa er nú útbreidd á meginlandi Evrópu en hægt er að sjá nánari upplýsingar á sameiginlegum inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Gögn fyrir 7. viku ársins 2019 hafa ekki verið birt þegar þetta er ritað.

Samantekt og mat á inflúensunni síðastliðnar vikur
Inflúensan breiðist hratt út í samfélaginu, en er nokkuð seinna á ferðinni en fyrri ár, sjá mynd 1. Töluverð aukning var á fjölda þeirra sem leituðu til heilsugæslunnar vegna inflúensulíkra einkenna, en fjöldi sem greindist með staðfesta inflúensu var óbreyttur miðað við vikuna á undan. Ekki var mikið um innlagnir á Landspítala vegna inflúensu.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur
Enn er töluvert um staðfesta Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV), en í síðustu viku var veiran staðfest hjá níu einstaklingum, sjá töflu á vef veirufræðideildar Landspítala. Börn á fyrsta og öðru aldursári greinast hlutfallslega oftast með RSV en veiran hefur einnig verið staðfest hjá öðrum aldurshópum, einkum meðal aldraðra, sem ásamt ungbörnum er þekktur áhættuhópur.

Meltingarfærasýkingar
Fjöldi tilkynninga frá heilsugæslunni og bráðamóttökum um niðurgang í 7. viku var nokkuð lægri en á sambærilegum árstíma síðustu ára, sjá mynd 2.

Mynd 2

Stöku einstaklingar greinast með noro-, sapo- og adenóveirur, en minna hefur greinst af rótaveiru á þessu tímabili, sjá nánar á vef veirufræðideildar Landspítala.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka