21.12.18

Norrænt samskiptanet gefur líf

 Líffæragjafar og líffæraþegar á Íslandi njóta góðs af samskiptakerfinu Scandiatransplant sem sjúkrahús á Norðurlöndum eiga og reka og Eistlendingar fengu aðild að á árinu 2017. Kerfið tekur til yfir 28,2 milljóna manna. Það hefur sýn yfir hverjir hafi á hverjum tíma mesta þörf fyrir hvaða líffæri á svæðinu og miðlar líffærum í samræmi við það.

Á kynningarfundum Embættis landlæknis vegna Við gefum líf-verkefnisins er oft spurt hvort fólk geti haft áhrif á hver fái líffæri barna sinna, maka eða nákominna ættingja. Starfsmenn í heilbrigðisþjónustunni heyra til dæmis að sumir vilja helst geta fylgst með þegum líffæra sem nákomnir ættingjar gefa. Aðrir vilja að Íslendingar fái líffærin en ekki útlendingar. Svo eru til dæmi um að viljugur líffæragjafi vilji útiloka alveg með skráningu að einhverjir úr eigin fjölskyldu fái líffærin hans.

Ýmsar hliðar líffæragjafa bar á góma á fundi stjórnenda Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Mjódd í Reykjavík í morgun. Þangað mættu Jórlaug Heimisdóttir, verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis, og Runólfur Pálsson, læknir á Landspítala, til að fjalla um breytt lög um líffæragjafir sem taka gildi um áramót.

Runólfur svaraði því til að ekki væri gefið upp hverjir fengju ígrædd líffæri frá Íslandi. Hann tók jafnframt fram að Íslendingar sem fengju grædd í sig líffæri spyrðu aldrei hvaðan þau væru komin. Líffærum er með öðrum orðum miðlað nafnlaust eftir þörfum.

Scandiatransplant hefur sýn yfir stöðuna og þörfina hverju sinni, einkum hvað varðar hjörtu, lifrar og lungu. Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg heldur utan um biðlista eftir líffærum hvað Ísland varðar.

 Runólfur sagði að lengi vel hefði verið litið á líffæraígræðslu sem kraftaverk en nú væri ígræðsla hluti af venjulegri meðferð við tilteknum aðstæðum og sjúkdómum á ákveðnu stigi.

„Höfum svo í huga að mjög fáir deyja á þann veg að þeir komi til greina sem líffæragjafar. Hér á landi gerist það einungis eftir heiladauða vegna alvarlegra áverka á heila eða mikillar heilablæðingar. Flóknara og mun erfiðara er að fást við líffæragjafir eftir hjartadauða á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð."

Á fundinum í morgun var ákveðið að vekja athygli á líffæragjöfum og verkefninu Við gefnum líf með skjámyndum í tilkynningakerfi heilsugæslustöðva og veggblöðum með merkinu góða sem Þórhildur Jónsdóttir, grafískur hönnuður og myndlistarmaður, hannaði fyrir embætti landlæknis.

Þá upplýsti Jórlaug Heimisdóttir frá því að í janúar yrði opin málstofa í Reykjavík um líffæragjafir og breytt lög þar að lútandi. Frekari athygli verður vakin á málefninu með blaðaskrifum, með vefborðum sem vísa á vef landlæknis og fleiri ráðum.

Markmiðið er að vekja umræðu og svara spurningum á markvissan hátt en ekki að efna til „flugeldasýningar" á opinberum vettvangi. Umræðuefnið er að sjálfsögðu viðkvæmt en eðlilegt samt að skapa vettvang til að ræða það líkt og margt annað sem virðist ansi fjarlægt í tilveru dagsins en kann svo skyndilega að verða blákaldur veruleiki á morgun.

<< Til baka