12.12.18

Fyrsta áætlun um gæðaþróun heilbrigðisþjónustunnar staðfest

 Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma D. Möller landlæknir, undirrituðu í dag áætlun um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu til ársins 2030. Þetta er fyrsta áætlunin þessa efnis sem gerð er á grundvelli laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Heilbrigðisráðherra segir áætlunina ásamt þeirri heilbrigðisstefnu sem er í mótun verða einn af hornsteinum heilbrigðisþjónustunnar.

Heilbrigðisráðherra og landlæknir boðuðu til sameiginlegs fréttamannafundar í húsakynnum Embættis landlæknis í dag þar sem áætlunin var kynnt og síðan staðfest af ráðherra, líkt og áskilið er í lögum, en áætlunin er unnin í samræmi við 11. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og er ætlað að efla gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að þróun hennar.

Fundað með heilbrigðisstofnunum til að ýta áætluninni úr vör

Embætti landlæknis mun hafa áætlunina til hliðsjónar við úttektir sínar á heilbrigðisþjónustu en gert er ráð fyrir að áætlunin verði innleidd í áföngum. Landlæknir segir mörg þeirra viðfangsefna sem áætlunin tekur til vera umfangsmikil og ljóst að það taki töluverðan tíma og vinnu að koma þeim að fullu í framkvæmd. Embættið muni nú gera skipulega áætlun um innleiðingarferlið og hyggst funda á næstu mánuðum með heilbrigðisstofnunum um allt land til þess að kynna áætlunina og ýta henni úr vör.

 Efni áætlunar um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu snýr að fjórum meginþáttum. Þessir þættir lúta að umbótaferli og stjórnskipulagi, markvissri skráningu og birtingu gæðavísa til að fylgjast með gæðum heilbrigðisþjónustunnar, innleiðingu samræmdrar atvikaskrár á landsvísu með áherslu á að finna skýringar á óvæntum atvikum til að fyrirbyggja að þau endurtaki sig og loks gerð og hagnýtingu reglubundinna þjónustukannana meðal notenda heilbrigðisþjónustunnar til að vinna að úrbótum. Síðast en ekki síst er kveðið á um reglubundin gæðauppgjör, sem samanstendur af fyrrnefndum fjórum meginþáttum, sem veitendum heilbrigðisþjónustu er ætlað að skila árlega til Embættis landlæknis og Sjúkratrygginga Íslands svo unnt sé að leggja mat á gæði og öryggi veittrar þjónustu.

„Þarna eru sett fram mikilvæg viðmið og leiðbeiningar um grundvallarþætti heilbrigðisþjónustunnar. Þetta er afar mikilvæg áætlun sem mun ásamt Heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem nú er í umsagnarferli, verða einn af hornsteinum heilbrigðisþjónustunnar." segir Svandís Svavarsdóttir  heilbrigðisráðherra.

Alma D. Möller landlæknir segir afar mikilvægt að leggja áherslu á eflingu gæða, öryggis og umbótastarfs í heilbrigðisþjónustu: „Það er ekki einungis siðferðilega rétt heldur sýna rannsóknir að slíkt er beinlínis fjárhagslega hagkvæmt."

 Sjá nánar Áætlun um gæðaþróun

<< Til baka