14.11.18

Vitundavakning um sýklalyfjanotkun

Sjá stærri mynd

Þann 12. nóvember 2018 hófst fjórða vitundarvika  Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um skynsamlega notkun sýklalyfja. Auk þess er dagurinn í dag, 15. nóvember, sérstaklega helgaður vitundarvakningu í Evrópu af Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC). Tilgangur þessarar vitundarvakningar er að minna einstaklinga, stjórnvöld og heilbrigðisstarfsmenn á mikilvægi þess að nota sýklalyf skynsamlega og minna á þá ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Í ár er lögð áhersla á þá heilbrigðisógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería og mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða sem m.a. felast í skynsamlegri notkun sýklalyfja og ýmsum sóttvarnaaðgerðum.

Á Íslandi er vel fylgst með notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum, og einnig með þróun sýklalyfjaónæmis. Hér á landi er sýklalyfjanotkun hjá mönnum mest miðað við hin Norðurlöndin en um miðbik ef miðað er við öll Evrópulönd. Hins vegar er sýklalyfjanotkun hjá dýrum hér á landi áfram ein sú minnsta í Evrópu.

ECDC hefur bent á að árlega látast um 33.000 einstaklingar á Evrópska efnahagssvæðinu en sjúkdómsbyrði sýklalyfjaónæmis er langminnst hér á landi miðað við önnur Evrópulönd. Mikilvægt er að viðhalda þeirri stöðu en til þess að svo megi verða þurfa margir aðilar hér á landi að taka höndum saman m.a. með því að stuðla að bættri sýklalyfjanotkun hjá mönnum, halda sýklalyfjanotkun áfram í lágmarki hjá dýrum og efla eftirlit með bakteríum í ferskum matvörum. Starfshópur heilbrigðisráðherra skilaði fyrr á þessu ári tillögum um aðgerðir sem miða að því að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi.

 

Lesa nánar:

 

Sóttvarnalæknir

<< Til baka