13.11.18

Bið eftir hjúkrunarrými

Embætti landlæknis ber lögum samkvæmt að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og fylgist reglulega með aðgengi að þeirri þjónustu, svo sem biðlistum og biðtíma.

Nú hafa upplýsingar um bið eftir varanlegri búsetu í hjúkrunarrými á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2018 verið teknar saman og bornar saman við fyrri ár.

Það er verulegt áhyggjuefni að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum hafa lengst og í september 2018 biðu að meðaltali 411 einstaklingar eftir slíkum rýmum en í september 2017 biðu að meðaltali 342. Fjölgun á landsvísu nemur 20%.

Biðtími eftir hjúkrunarrýmum hefur einnig lengst umtalsvert á undanförnum árum. Á þriðja ársfjórðungi ársins 2018 var miðgildi biðtíma 83 dagar en á þriðja ársfjórðungi ársins 2017 var miðgildi biðtíma 70 dagar.

Í starfsemisupplýsingum Landspítala kemur fram að 1. október 2018 hafi 16% af rúmum á Landspítala (án öldrunardeildar á Vífilsstöðum og líknardeildar) verið notuð af öldruðum með gilt færni- og heilsumat sem biðu úrræðis utan spítalans.

Embætti landlæknis lýsir eins og áður yfir þungum áhyggjum af stöðunni og þeim áhrifum sem löng bið eftir hjúkrunarrýmum getur haft, bæði á lífsgæði þeirra sem bíða svo og heilbrigðiskerfið. Brýnt er að allra leiða verði leitað til að bæta úr þessari stöðu.

Lesa nánar: Bið eftir hjúkrunarrými - Samantekt í október 2018 (pdf) 

 

Nánari upplýsingar veitir Laura Sch. Thorsteinsson, teymisstjóri úttekta

<< Til baka