07.08.18

Greiðsluþátttaka hins opinbera vegna notkunar lyfs gegn HIV samþykkt af lyfjagreiðslunefnd (PrEP meðferð).

Á fundi sínum þ. 25. júní 2018, samþykkti lyfjagreiðslunefnd greiðsluþátttöku fyrir samheitalyfinu Emtricitabine/Tenofovir disoproxil Krka til nota í fyrirbyggjandi meðferð gegn HIV. Skilyrði fyrir leyfisveitingunni voru að einungis læknar LSH með sérfræðiviðurkenningu í smitsjúkdómum myndu ávísa lyfinu og að meðferðin yrði veitt samkvæmt klínískum leiðbeiningum smitsjúkdómadeildar LSH. Í þessum leiðbeiningum er kveðið á um rannsóknir gegn HIV og öðrum kynsjúkdómum hjá þeim sem fá ávísað lyfinu auk fræðslu um varnir gegn kynsjúkdómum almennt. Einnig þurfa þeir einstaklingar sem fá lyfið að undirgangast ákveðið eftirlit í nokkra  mánuði. Leyfisskylda lyfjagreiðslunefndar er til eins árs og verður endurmetin m.t.t. kostnaðar og fjölda einstaklinga sem fá meðferð með lyfinu.

Sóttvarnalæknir telur að þessi ákvörðun lyfjagreiðslunefndar sé áfangasigur í baráttunni við HIV og aðra kynsjúkdóma en sóttvarnalæknir og starfshópur heilbrigðisráðherra um aðgerðir gegn kynsjúkdómum hafa áður bent á mikilvægi þessa fyrirkomulags.

Þeim einstaklingum sem hug hafa á að nýta sér ofangreinda meðferð er bent á að panta tíma á göngudeild smitsjúkdóma LSH í síma 543-6040.

 

Sóttvarnalæknir

<< Til baka