04.04.18

Vel sótt vinnustofa fyrir tengiliði Heilsueflandi samfélags

Sjá stærri mynd

Vinnustofa fyrir tengiliði Heilsueflandi samfélags (HSAM) var haldin á vegum Embættis landlæknis þann 19. mars síðastliðinn í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

Tengiliðum þátttakandi sveitarfélaga og sveitarfélaga sem eru að undirbúa þátttöku í Heilsueflandi samfélagi (HSAM) var boðið. Þátttakendur voru tæplega 40 frá 21 sveitarfélagi. Megintilgangur vinnustofunnar var að styrkja tengiliði í að halda utan um heilsueflingarstarf í samfélagi sínu með markvissum hætti og efla tengslanetið sín á milli.

Birgir Jakobsson landlæknir hóf dagskrá vinnustofunnar með því að bjóða fólk velkomið og voru í framhaldinu kynntar niðurstöður úr MA verkefni við Háskólann á Bifröst, um innleiðingarferli Heilsueflandi samfélags í sex sveitarfélögum. Þá var farið yfir núverandi stöðu í starfi Heilsueflandi samfélags og framtíðarsýn. M.a. var fjallað um markvisst lýðheilsustarf og hvernig Heilsueflandi samfélag getur stutt sveitarfélögin í að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Einnig var fjallað um lýðheilsuvísa og hvaða gögn eru í boði fyrir starfið, frá hverjum og á hvaða formi. Fulltrúi verkefnisstjórnar Stjórnarráðsins um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna kynnti markmiðin og skörun þeirra við starf Heilsueflandi samfélags. Einnig fjallaði Samband íslenskra sveitarfélaga um sveitarfélögin og Heilsueflandi samfélag.

Veittar voru hagnýtar upplýsingar um starf Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ, Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi. Einnig voru almennar umræður um heilsueflingarstarf sveitarfélaganna.

Sérfræðingur frá Capacent fræddi þátttakendur og setti fram verkefni um stefnumótun, markmiðasetningu og aðgerðaáætlanir. Að lokum voru sérstaklega rædd tvö af leiðarljósum HSAM þ.e. 1) Að byggja starfið á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma og 2) Að valda ekki skaða (e. do no harm). Hvaða merking liggur að baki og hvernig má haga starfinu í samræmi við þau.

Í tengslum við vinnustofuna skrifuðu þeir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðarvíkurhrepps og Birgir Jakobsson, landlæknir undir samstarfssamning um Heilsueflandi samfélag á Súðavík. Fulltrúar Norðurþing og Grindavíkur, sem nýlega gerðust heilsueflandi samfélög, fengu einnig afhenda fána HSAM við sama tækifæri.

Öllum sem komu að dagskrá og þátttakendum er þakkað fyrir þeirra framlag.


Mynd 1: Pétur G. Markan og Birgir Jakobsson skrifa undir samning um Heilsueflandi samfélag á Súðavík.


Myndir 2: Birgir Jakobsson landlæknir afhendir Kjartani Páli Þórarinssyni tengilið Heilsueflandi samfélags hjá Norðurþingi fána verkefnisins.


Mynd 3: Birgir Jakobsson landlæknir afhendir Jóhanni Árna Ólafssyni tengilið Heilsueflandi samfélags hjá Grindavíkurbæ fána verkefnisins.

<< Til baka