14.03.18

Flensur og aðrar pestir - 10. vika (5.–11. mars) 2018

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala
í síðustu viku (10. viku) var inflúensan staðfest hjá 28 einstaklingum. Inflúensu B veiran veldur enn flestum sýkingum, en hún var staðfest hjá 20 einstaklingum, sjá vef veirufræðideildar Landspítala. Alls greindust átta einstaklingar með inflúensu A, þar af voru fjórir með inflúensu A(H3) og fjórir með inflúensu A(H1)pdm09. Fólk á öllum aldri greindist með inflúensu B og inflúensu A(H1)pdm09, en inflúensa A(H3) var oftast staðfest meðal aldraðra.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum
Í 10. viku fækkaði þeim sem greindust með inflúensulík einkenni í heilsugæslunni og bráðamóttökum borið saman við vikuna á undan, sjá mynd 1

Staðan á meginlandi Evrópu
Inflúensan var áfram í mikilli útbreiðslu á meginlandi Evrópu í 9. viku (26. febrúar–4. mars), en sennilega má greina fyrstu merki þess að nú fari að draga úr henni, sjá inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Inflúensa B er algengasta greiningin en bæði inflúensa A(H3) og inflúensa A(H1)pdm09 hafa greinst á meginlandinu og hlutfall þessara veirustofna er breytilegt milli landa.

Innlagnir vegna inflúensu á Landspítala
Samkvæmt upplýsingum frá sýkingavarnadeild Landspítala fækkar nú sennilega þeim sem þurfa að leggjast inn með inflúensu. Mynd 2 sýnir aldursdreifingu þeirra sem lagðir voru inn á Landspítala með inflúensu frá því í 37. viku 2017. Flestir þeirra voru einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma eða aldraðir.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur
Í 10. viku var Respiratory Syncytial veiran (RSV) staðfest hjá níu einstaklingum sem er fækkun borið saman við 9. viku eins og sjá má á vef veirufræðideildar Landspítala. Í síðustu viku var human metapneumóveira (hMPV) staðfest hjá 12 einstaklingum. Báðar veirurnar greindust meðal fólks á öllum aldri, sem sýnir að bæði RSV og hMPV leggjast á alla aldurshópa þó þær séu þekktar fyrir að valda alvarlegustum einkennum hjá ungum börnum.

Samantekt og mat á öndunarfæraveirum síðastliðnar vikur
Í 10. viku dró úr inflúensulíkum einkennum í samfélaginu, sem bendir til að faraldurinn sé í rénun. Sennilega fækkar þeim sem þurfa að leggjast inn vegna inflúensu og færri greindust með staðfesta inflúensu. En áfram er töluvert af RSV og hMPV greiningum á veirufræðideild Landspítala.

Meltingarfærasýkingar
Tilkynningum um niðurgang virðist í heildina fara fækkandi, sjá mynd 3. Enn er töluvert um niðurgang hjá börnum á aldrinum 1–4 ára og sjö einstaklingar greindust með staðfesta rótaveiru, þar af voru sex einstaklingar sex ára eða yngri. Sjá einnig á vef veirufræðideildar Landspítala.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka