01.03.18

Breytt skipulag rafrænnar sjúkraskrár frá og með 1. mars 2018

Sjá stærri mynd

Frá og með 1. mars 2018 gengur í gildi nýtt skipulag varðandi verkefni rafrænnar sjúkraskrár hjá Embætti landlæknis. Verkefnið verður fært frá heilbrigðisupplýsingasviði beint undir landlækni. Ennfremur skipar velferðarráðuneytið, að beiðni landlæknis, stýrinefnd rafrænnar sjúkraskrár samkvæmt tilnefningum frá aðilum í heilbrigðisþjónustu.

Eftirfarandi stofnanir og samtök eiga fulltrúa í stýrinefndinni; Landspítali háskólasjúkrahús, Sjúkrahús Akureyrar, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, framkvæmdastjórn heilbrigðisstofnana af landsbyggðinni og samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Stýrinefndin mun vinna með Embætti landlæknis að uppbyggingu, þróun og samhæfingu rafrænnar sjúkraskrár. Stýrinefndin samþykkir starfsáætlun rafrænnar sjúkraskrár og fylgist með framkvæmd hennar. Landlæknir er formaður stýrinefndar.

Í mars 2012 voru málefni sem tengjast rafrænni sjúkraskrá flutt frá velferðarráðuneyti til Embættis landlæknis. Verkefninu var komið fyrir innan heilbrigðisupplýsingasviðs og þar varð til starfseining sem sinnt hefur stýringu, samhæfingu og framkvæmd verkefna rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu. Á þeim tæplega sex árum sem liðin eru frá því að verkefnið flutti til embættisins hefur það vaxið og dafnað. Helstu verkefni sem unnin hafa verið eru samtengingar milli heilbrigðisstofnana sem tryggja aðgang heilbrigðisstarfsmanna að mikilvægum upplýsingum um sína sjúklinga á milli stofnana, nýr lyfjagagnagrunnur,aðgengilegur læknum, er kominn í notkun, aðgangur almennings að eigin heilbrigðisupplýsingum er í þróun í gegnum heilsuvera.is og verið er að innleiða nýja rafræna mæðraskrá.

Verkefni rafrænnar sjúkraskrár snúast um að þróa rafræna sjúkraskrá, fyrir landið allt, í samræmi við þarfir sjúklinga, heilbrigðisstarfsmanna og stjórnenda og stuðla þannig að góðri, öruggri og hagkvæmri þjónustu. Embætti landlæknis hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á gott samstarf við notendur rafrænnar sjúkraskár í þessari þróun. Til þess að styrkja enn frekar aðkomu hagsmunaaðila í heilbrigðisþjónustu að stjórn verkefnisins gerir Embætti landlæknis nú þessar breytingar á skipulagi þess og fær formlega stýrinefnd helstu hagsmunaaðila til þess að starfa með embættinu í þessu mikilvæga verkefni.

Á sama tíma flytja starfsmenn verkefnisins í Skógarhlíð 6 og verður verkefnið starfrækt undir heitinu „Miðstöð rafrænnar sjúkraskrár“. Teymisstjóri rafrænnar sjúkraskrár, Ingi Steinar Ingason, ber áfram ábyrgð á stjórnun verkefna, þróun og áætlanagerð á sviði rafrænnar sjúkraskrár en nú í samvinnu við stýrinefnd rafrænnar sjúkraskrár. Hann stýrir teymishóp rafrænnar sjúkraskrár sem vinnur að verkefnum á starfsáætlun.

Sigríður Haraldsdóttir 
Sviðsstjóri heilbrigðisupplýsingasviðs

Birgir Jakobsson
landlæknir

 

<< Til baka