22.01.18

Flensur og aðrar pestir - 3. vika 2018

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala í 3. viku 2018
Aðeins færri greindust með staðfesta inflúensu í þriðju viku ársins borið saman við vikuna þar á undan. Svipaður fjöldi greindist með inflúensu B en aðeins dró úr fjölda þeirra sem greindust með inflúensu A, sjá vef veirufræðideildar Landspítala. Við nánari skoðun á inflúensu A veirustofnum sést að átta einstaklingar greindust með inflúensu A(H3) en einn með Inflúensu A(H1)pdm09. Hátt hlutfall inflúensu B greininga er í samræmi við stöðuna á meginlandi Evrópu en þar er inflúensa B algengasta greiningin. Hér á landi er inflúensan oftast staðfest hjá öldruðum, 18 af 32 einstaklingum voru 65 ára eða eldri, en stöku börn og fólk á öðrum aldri einnig.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum
Í síðustu viku (3.) fjölgaði þeim sem greindust með inflúensulík einkenni í heilsugæslunni og bráðamóttökum, en aukningin var ekki jafnmikil og í vikunum þar á undan, sjá mynd 1.

Staðan á meginlandi Evrópu
Inflúensan jókst nú á meginlandi Evrópu í 3. viku, hægt er að sjá nánari upplýsingar á inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinngar (WHO). Inflúensa B var enn ríkjandi en bæði inflúensa A(H3) og inflúensa A(H1)pdm09 greinist á meginlandinu en hlutfall þessara veirustofna er breytilegt milli landa og vöktunarkerfa.

Innlagnir vegna inflúensu á Landspítala
Samkvæmt upplýsingum frá sýkingavarnadeild Landspítala dró aðeins úr fjölda sjúklinga sem voru inniliggjandi með inflúensu í 3. viku borið saman við vikuna þar á undan. Mynd 2 sýnir aldursdreifingu þeirra frá 37. viku 2017. Flestir sem leggjast inn vegna inflúensu eru einstaklingar með undirliggjandi sjúkóma eða aldraðir.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur
Enn greinast margir með Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV). Í 3. viku var veiran staðfest hjá 26 einstaklingum, eins og sjá má á vef veirufræðideildar Landspítala. Þar af voru 11 börn á fyrsta og öðru aldursári og 10 einstaklingar voru 70 ára og eldri. Aldraðir og ungabörn eru þekktir áhættuhópar en veiran hefur einnig verið staðfest hjá fólki á öðrum aldri. Í síðustu viku var human metapneumóveira staðfest hjá sex einstaklingum og á sl. vikum hafa alls 28 einstaklingar greinst með þessa veiru sem getur valdið svipuðum einkennum og RSV gerir hjá börnum.

Samantekt og mat á öndunarfæraveirum síðastliðnar vikur
Bæði Inflúensa A og B breiðast út í samfélaginu og er hún oftast staðfest hjá fullorðnum og öldruðum. Mikið álag er á Landspítala, en þeir sem leggjast inn með inflúensu eru aðallega einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma eða aldraðir. RSV-veiran er einnig í útbreiðslu og greinist oftast hjá ungum börnum og öldruðum einstaklingum, en einnig er nokkuð um metapneumóveirusýkingar.

Meltingarfærasýkingar
Nokkuð er um niðurgang samkvæmt tilkynningum frá heilsugæslunni og bráðamóttökum, sjá mynd 3. Iðrakveisuveirur voru staðfestar hjá 13 einstaklingum. Þar af greindust fimm börn á fyrsta og öðru aldursári með rótaveirusýkingu og þrjú börn á sama aldri greindust með adenóveirusýkingu, sjá nánar á vef veirufræðideildar Landspítala. Nokkrir voru með staðfesta nóró- eða sapóveirusýkingu, flestir þeirra voru á barnsaldri.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka