14.12.17

Flensur og aðrar pestir - 49. vika 2017

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala
Á síðastliðnum 12 vikum hefur inflúensa A verið staðfest hjá 14 einstaklingum eins og sjá má á vef veirufræðideildar Landspítala. Hluti þeirra sem hafa greinst eru ferðamenn sem smituðust erlendis en einnig hafa einstaklingar smitast hér á landi. Enn hefur enginn greinst með inflúensu af B stofni það sem af er þessum vetri.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum
Í 49. viku fengu samtals 20 sjúklingar, sem leituðu til heilsugæslunnar og á bráðamóttökur greininguna inflúensulík einkenni, sjá mynd 1.

Staðan á meginlandi Evrópu
Lítið er um inflúensu á meginlandi Evrópu en hægt er að sjá nánari upplýsingar á inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinngar (WHO).

Samantekt og mat á inflúensunni síðastliðnar vikur
Inflúensan virðist ekki vera farin að breiðast út í samfélaginu þrátt fyrir að stöku tilfelli hafi verið staðfest á veirufræðideild Landspítala.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur
Á síðustu 12 vikum hafa 26 einstaklingar greinst með staðfesta Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV), sjá töflu á vef veirufræðideildar Landspítala. Þar af greindust 14 einstaklingar með sýkinguna í 49. viku.

Börn á fyrsta og öðru aldursári greinast hlutfallslega oftast með RSV en einnig hefur veiran verið staðfest öðrum aldurshópum, einkum meðal aldraðra, sem ásamt ungabörnum er þekktur áhættuhópur.

Meltingarfærasýkingar
Töluverð aukning var á fjölda tilkynninga um niðurgang frá heilsugæslunni og bráðamóttökum eins og ávallt sést þessum árstíma, sjá mynd 2.
Talsvert hefur greinst af nóró- og sapóveiru frá því í byrjun september, sjá nánar á vef veirufræðideildar Landspítala. Á sama tímabili hafa stöku einstaklingar greinst með rótaveiru.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka