14.12.17

Embætti landlæknis breytir vinnubrögðum varðandi veitingu sérfræðileyfa í læknisfræði.

Íslensk yfirvöld hafa fengið ábendingu frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þess efnis að afgreiðsla sérfræðileyfa hér á landi hafi í einstaka tilvikum ekki verið í samræmi við samninga sem Ísland er aðili að innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), þ.e. tilskipun nr. 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Í þeim tilvikum hafa lög og reglugerðir á Íslandi ekki verið túlkuð á þann hátt að það samrýmist áðurnefndum samningum. Verði uppteknum hætti haldið áfram eiga þeir læknar sem fá sérfræðiviðurkenningu á Íslandi á hættu að sérfræðiviðurkenning þeirra öðlist ekki gildi í öðrum löndum EES.

Fjallað er um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis í 8. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Í ákvæðinu segir að í reglugerð um veitingu sérfræðileyfis skuli kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þurfi til að hljóta leyfi til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi. Miðað skuli við að lokið hafi verið formlegu viðbótarnámi á viðkomandi sérfræðisviði.

Í 2. gr. 7. gr. reglugerðar nr. 467/2015 sem tók gildi 24. apríl 2015, segir að til að læknir geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi skuli hann m.a. hafa lokið viðurkenndu sérnámi sbr. c. lið. Segir jafnframt í 3. mgr. sömu greinar að umsækjandi um sérfræðileyfi í sérgrein og undirsérgrein innan læknisfræði skuli fyrst hafa hlotið sérfræðileyfi í því ríki þar sem sérnámið eða meirihluti sérnáms fór fram og þar sem sérnámi lauk.

Í framangreindri reglugerð er sólarlagsákvæði þar sem fram kemur að læknir sem fengið hefur almennt lækningaleyfi og hafið skipulagt sérnám fyrir gildistöku reglugerðarinnar er heimilt að sækja um sérfræðileyfi á grundvelli eldri reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1222/2012. Í ljósi ábendinga ESA bendir landlæknir á að í c. lið 2. mgr. 7. gr. eldri reglugerðarinnar segir líkt og í nýju reglugerðinni að til að læknir geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi skuli hann m.a. hafa lokið viðurkenndu sérfræðinámi eða sérfræðiprófi.

ESA mælist til þess að Ísland veiti ekki sérfræðiviðurkenningu nema að fyrir liggi gögn um að umsækjandi hafi lokið formlega viðurkenndu námi og hafi þá fengið sérfræðileyfi í því landi sem nám fór fram eða þar sem náminu lauk. Ekki er nægjanlegt að uppfylla kröfur um lágmarks námstíma samkvæmt framangreindum reglugerðum.

Á Íslandi er í dag hægt að ljúka sérnámi í tveimur sérgreinum, heimilislækningum og geðlækningum. Íslensk yfirvöld geta því aðeins veitt læknum leyfi í þessum sérgreinum að því tilskyldu að ofangreind skilyrði séu uppfyllt.

Á Íslandi er enn fremur hægt að hefja sérnám í nokkrum sérgreinum. Nú er verið að setja marklýsingar um þann hluta sérnámsins sem fer fram hér á landi sem styrkir mat þess náms þegar sótt er um framhald sérnáms erlendis. Einnig er það nám skipulagt í samstarfi við og vottað af viðurkenndum erlendum stofnunum og krafist er að landlæknir gefi umsögn um og birti marklýsingarnar.

Þegar læknar leita erlendis í sérnám og hafa í hyggju að notfæra sér þann tíma sem þeir hafa stundað skipulagt sérfræðinám á Íslandi er nauðsynlegt að þeir gangi úr skugga um það að hve miklu leyti sá tími fæst viðurkenndur sem hluti af sérnámi í viðkomandi landi. Þetta er mikilvægt að gera í samráði við þann lækni sem ber ábyrgð á handleiðslu í náminu hér á landi.

Í ljósi framangreinds er tilefni til að taka fram að meirihluti sérfræðileyfa sem veitt eru hér á landi eru staðfesting á sérfræðileyfi sem viðkomandi hefur fengið í námslandi, þ.e. sem sérmenntun læknis fór fram. Engar athugasemdir hafa verið gerðar að hálfu ESA við þá framkvæmd og afgreiðslu slíkra leyfa.

Í samræmi við framangreint mun embættið nú gera kröfur um að umsækjandi um sérfræðileyfi skili vottorði frá þar til bæru yfirvaldi um að hann hafi lokið viðurkenndu sérnámi og hafi fengið sérfræðiviðurkenningu í því landi þar sem sérnáminu lauk. Ekki verður því lengur nægjanlegt að skila inn vottorði frá námsstöðum um að umsækjandi mögulega uppfylli kröfur um lágmarks námstíma.

Varðandi vottorð landlæknis um áður útgefin sérfræðileyfi lækna, sem ekki voru gefin út í samræmi við framangreind tilmæli ESA, verður nú einungis hægt að staðfesta að viðkomandi sé með leyfi til að starfa hér á landi. Embættið mun hins vegar ekki geta staðfest að nám viðkomandi sé í samræmi við skilyrði tilskipunar nr. 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri mennntun og hæfi.

Landlæknir

<< Til baka