11.12.17

Vinnustofa í tengslum við evrópskt samstarfsverkefni um geðheilsu og vellíðan

Sjá stærri mynd

Fimmtudaginn 7. desember stóð Embætti landlæknis, í samvinnu við velferðarráðuneytið, að innlendri vinnustofu í tengslum við evrópskt samstarfsverkefni um geðheilsu og vellíðan sem ber heitið EU Compass for Action on Mental Health and Wellbeing. Þetta verkefni er framhald af verkefninu Joint Action for Mental Health and Well-Being  (JAMHWB) sem Embætti landlæknis tók þátt í á árunum 2013-2016. Lesa má nánar um afrakstur þeirrar vinnu í skýrslu sem finna má hér: Evrópskt samstarfsverkefni um geðheilsu og vellíðan.


EU Compass er ætlað að fylgja eftir niðurstöðum JAMHWB verkefnisins sem settar voru fram í áætlun um geðheilsu og vellíðan í Evrópu, European Framework for Action on Mental Health and Well-Being.

Áætlunin snýr að fimm áhersluatriðum:

1. Stefnumótun og löggjöf
2. Geðrækt og forvörnum
3. Geðheilbrigðisþjónustu í nærumhverfi
4. Gagnasöfnun og rannsóknum
5. Evrópskri samvinnu 

Á vinnustofunni, sem haldin var á Grand hótel, var sjónum beint að fjórum fyrstnefndu atriðunum og afmörkuð íslensk úrlausnarefni tekin fyrir í vinnuhópum hvað þessi atriði varðar.

Hópur 1 fjallaði um hvernig megi skilgreina og lögfesta stigskiptingu geðheilbrigðiskerfisins, hvaða stofnanir skuli starfa á hverju stigi, hver viðfangsefni tiltekinna stofnana skuli vera og hvernig samstarfi milli stofnana og kerfa skuli háttað. Hópur 2 ræddi hvernig tryggja megi árangursríkar forvarnir og snemmtæka íhlutun í samræmi við þrepaskiptan stuðning við nemendur í skólastarfi. Hópur 3 fékkst við samstarf milli heilsugæslu og félags- og skólaþjónustu í þeim tilgangi að efla gagnreynda þjónustu við börn og ungmenni og nýta sem best þann mannafla, fjármagn og þekkingu sem er til staðar á 1. þjónustustigi. Hópur 4 fjallaði um hvernig tryggja megi söfnun áreiðanlegra upplýsinga í rauntíma um fjölda barna og ungmenna sem hafa fengið greiningu um geð- og þroskaraskanir hér á landi.

Þátttakendur voru tæplega fimmtíu fulltrúar ráðuneyta, skólasamfélagsins, barnaverndaryfirvalda, heilbrigðisþjónustu á öllum þjónustustigum, fagfélaga og notenda. Markmiðið var að leiða saman aðila sem koma að þessum málum og vinna markvisst að því að finna lausnir varðandi þau atriði sem tekin voru til umfjöllunar, m.a. með greiningu á styrkleikum og veikleikum hér á landi og forgangsröðun verkefna sem þurfi að ráðast í á næstu árum til þess að koma málum í betri farveg.

Dagurinn þótti takast afar vel og munu niðurstöður og greiningar vinnuhópanna verða teknar saman í skýrslu sem afhent verður ráðherrum heilbrigðis-, félags- og menntamála í byrjun næsta árs.

Sigrún Daníelsdóttir,
verkefnastjóri geðræktar

<< Til baka