07.12.17

Vefur Embættis landlæknis kemur til móts við mismunandi fatlanir notenda

Embætti landlæknis er afar stolt af þeim niðurstöðum sem vefur stofnunarinnar fékk í úttektinni „Hvað er spunnið í opinbera vefi 2017", sem nýverið voru kynntar á Upplýsingatæknideginum (UT-deginum).

Vefur embættisins er á meðal stofnana sem fengu fullt hús stiga bæði fyrir nytsemi og aðgengi, þ.e. komið er til móts við mismunandi fatlanir notenda. Vefurinn stökk samtals upp um 28 sæti frá því að könnunin var síðast framkvæmd árið 2015.

Í ár tóku 145 stofnanir þátt í úttektinni sem er framkvæmd af Sjá .Hún er mikilvægt tæki til að meta gæði og fylgjast með þróun opinberra vefja. Áhersla er lögð á að meta innihald, nytsemi, aðgengi, þjónustu og lýðræðislega þátttöku auk öryggis opinberra vefja. Niðurstöður voru kynntar á Upplýsingatæknideginum (UT-dagurinn) sem er skipulagður af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Ský (Skýrslutæknifélagi Íslands).

Aðgengi sett í forgang
Þegar úttektin „Hvað er spunnið í opinbera vefi" var framkvæmd árið 2015 var ljóst að Embætti landlæknis þyrfti að bæta aðgengi að vefnum fyrir notendur með mismunandi fatlanir. Í framhaldinu var mikil vinna lögð í að bæta úr þeim málum og er mjög ánægjulegt að sjá þá vinnu skila árangri.

Við mat Sjár á aðgengi er höfð til hliðsjónar ný tilskipun Evrópusambandsins um aðgengi að opinberum vefsíðum og forritum (nr. 2016/2102/EB), gerðar eru handvirkar og sjálfvirkar prófanir á vefnum sem byggja á gátlisti á WCAG 2.0 staðlinum og endurspeglar mismunandi fatlanir notenda.

Nánar um niðurstöður „Hvað er spunnið í opinbera vefi 2017"  

<< Til baka