06.12.17

Ánægja með málþing Heilsueflandi leikskóla-Upptökur aðgengilegar

Sjá stærri mynd

Á málþingi Heilsueflandi leikskóla sem var haldið þann 22. nóvember var lögð áhersla á að kynna efni sem Embætti landlæknis býður leikskólum og styður þá í að vinna að þeim þætti aðalnámskrár sem snýr að heilbrigði og velferð. Þ.e. leiðir Heilsueflandi leikskóla. Neðst í fréttinni má nálgast upptökur frá málþinginu.

Að loknu ávarpi Dóru Guðrúnar Guðmundsdóttur, sviðsstjóra Áhrifaþátta heilbrigðis var Jenný Ingudóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi leikskóla með erindi til kynningar á Heilsueflandi leikskóla. Um er að ræða nálgun sem styður leikskólana í að vinna að heilsueflingu barna og starfsfólks. Þetta er gert með gátlistum og öðru stuðningsefni sem hver þátttökuleikskóli hefur aðgang að í gegnum lokað svæði á heilsueflandi.is.

Að leggja grunn að góðri heilsu í barnæsku er lykilatriði og á Íslandi þar sem hátt hlutfall barna er í leikskóla er mikið tækifæri til þess að að huga að jöfnuði og heilsu. Leikskólarnir eru einnig fjölmennir vinnustaðir og í Heilsueflandi leikskóla er einnig hugað að starfsfólki enda hlýtur heilsa barna og þeirra umönnunaraðila að vera nátengd.

Í framhaldinu tók Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hreyfingar, við og ræddi um gildi hreyfingar á yngsta aldursskeiðinu. Hreyfing er ekki aðeins nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt og þroska heldur stuðlar auk þess að betri hvíld og hefur jákvæð áhrif á andlega líðan. Samkvæmt ráðleggingum um hreyfingu eiga börn að hreyfa sig minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir 30 mínútur daglega. Í vinnslu eru tímaseðlar um hreyfingu sem hægt verður að nýta í leikskólastarfi og verða betur kynntir síðar.

Hólmfríður Guðmundsdóttir tannlæknir flutti erindi um betri tannheilsu barna og varpaði fram spurningum til áheyrenda um hvort leikskólar væru tilbúnir að liðsinna foreldrum í hlutverki sínu að huga að tannheilsu barna sinna. Leikskólar geta til dæmis hvatt foreldra til að skrá heimilistannlækni fyrir börn sín og nýtt tannfræðslu í leik og starfi. Sumir leikskólar hafa tekið upp tannburstun í leikskóla og hefur það gefist vel.

Elva Gísladóttir, verkefnisstjóri næringar, hélt erindi um ráðleggingar um mataræði í leikskólum en embættið er um þessar mundir að gefa út uppfærða handbók fyrir leikskólaeldhús. Í leikskólum er mikilvægt að huga að notalegu og rólegu umhverfi þegar matast er og leggja áherslu á uppeldis- og félagslegt gildi máltíða. Matur þarf að vera hollur og góður, fjölbreyttur, öruggur til neyslu ásamt því að huga að umhverfinu og minni matarsóun.

Að lokum fjallaði Sigrún Daníelsdóttir, verkefnisstjóri geðræktar um geðrækt í leikskóla. Helstu sóknarfærin til að efla geðheilsu eru í æsku. Geðrækt felst í því að efla aðstæður, færni og lífsvenjur sem stuðla að félags- og tilfinningalegri heilsu og vellíðan. Kynntar voru fimm leiðir að vellíðan sem voru nýlega verið uppfærðar og embættið er að gefa út. Þær eru; myndum tengsl, hreyfum okkur, tökum eftir, höldum áfram að læra og gefum af okkur.

Að loknum erindum voru settir saman umræðuhópar um geðrækt, tannheilsu, hreyfingu og mataræði þar sem þátttakendum gafst kostur á að taka þátt í tveimur umræðuhópum. Mikil umræða skapaðist og voru verkefnisstjórar embættisins afar ánægðir og þakklátir fyrir áhuga og eldmóð þátttakenda.

Hér að neðan má sjá upptökur af fyrirlestrunum.

Setningarávarp. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir.
Heilsueflandi leikskóli. Jenný Ingudóttir.
Hreyfing leikskólabarna. Gígja Gunnarsdottir.
Betri tannheilsa barna. Hólmfríður Guðmundsdóttir.
Ráðleggingar um mataræði á leikskólum. Elva Gísladóttir.
Geðrækt í leikskóla. Sigrún Daníelsdóttir.

Við þökkum kærlega fyrir okkur


Jenný Ingudóttir
Verkefnisstjóri Heilsueflandi leikskóla

Facebook síða Heilsueflandi leikskóla

<< Til baka