06.12.17

Hærri álögur á óhollustu og lægri á hollar vörur eins og grænmeti og ávexti

Embætti landlæknis lýsir yfir ánægju sinni með það sem fram kemur í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar að skoðað verði hvernig beita megi efnahagslegum hvötum til eflingar lýðheilsu.

Embættið fagnar einnig því að Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sé opin fyrir því að taka upp sykurskatt. Embættið leggur áherslu á að lýðheilsusjónarmið verði höfð til hliðsjónar við ákvörðun skattlagningar þannig að hún virki sem forvarnaraðgerð og verði til að bæta heilsu Íslendinga.

Embætti landlæknis hefur áður lagt til að stjórnvöld hækki álögur á gosdrykki þannig að þeir séu a.m.k. skattlagðir í samræmi við almenna skattheimtu í landinu, þ.e. beri 24% virðisaukaskatt í stað 11%. Jafnframt að leggja ætti vörugjöld á gosdrykki þannig að hækkunin nemi a.m.k. 20% í heildina. Fjármuni sem koma inn mætti nýta til að lækka álögur á grænmeti og ávexti. Einnig ætti að eyrnamerkja hluta af álögunum fyrir starf á sviði heilsueflingar eins og gert er með gjöld á tóbak og áfengi. Þannig gætu stjórnvöld skapað aðstæður sem hvetja til heilbrigðari lifnaðarhátta og aukið jöfnuð til heilsu.

Þetta er í samræmi við niðurstöður skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) frá síðasta ári en þar kemur fram að það sé vaxandi vísindalegur grunnur fyrir því að vel skipulagðir skattar á matvæli, ásamt fleiri aðgerðum, geti verið áhrifarík leið til að bæta neysluvenjur. Mestur ávinningur sé af skatti á sykraða drykki og hann þurfi að vera áþreifanlegur og hækka verð um a.m.k. 20% sem geti minnkað neyslu um 20%. Jafnframt kemur fram að 10-30% lækkun á álögum á hollum vörum eins og ávöxtum og grænmeti geti verið áhrifarík leið til að auka neyslu á þessum hollu fæðutegundum.

Sjá nánar um rök fyrir skattlagningu gosdrykkja og reynslu annarra þjóða í ítarefni hér fyrir neðan.


Dóra Guðrún Guðmundsdóttir
sviðstjóri áhrifaþátta heilbrigðis

Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjóri næringar

Elva Gísladóttir
verkefnisstjóri næringar

<< Til baka