01.12.17

Varist gylliboð og gervilækningar

Embætti landlæknis berast reglulega ábendingar um starfsemi áhugafólks sem telur sig geta boðið betur en læknisfræðin og hjálpað fólki í heilsutengdum vanda, ekki síst þar sem nútíma læknisfræðin ekki ennþá dugir til.

Að gefnu tilefni vill landlæknir enn og aftur minna á að oftast er í ótrúlegum fullyrðingum falin fölsk von. Alvarlegast er ef slíkir tilburðir tefja eða koma í stað nauðsynlegra greininga og meðferða.

Fólk með langvinna og alvarlega sjúkdóma er sérlega útsatt fyrir hvers konar gylliboðum sem oftast fela í sér tálvon og stundum talsverð fjárútlát. Nýlega barst kvörtun varðandi krabbameinssjúkling sem orðið hefur fyrir óumbeðnum afskiptum manns sem vill miðla vafasamri þjónustu.

Lög heimila embættinu ekki lengur bein afskipti af slíku atferli nema um sé að ræða viðurkennda heilbrigðisstarfsmenn. Landlæknir vill þó benda sjúklingum sem verða fyrir ásækni sjálfskipaðra veitenda og miðlara ósennilegra lækninga, að þeir ráðfæri sig vel við sinn lækni og bendi yfirvöldum gjarnan á ef þeir telja athæfið alvarlegt eða ef þeir telja að aðili sem tilheyrir viðurkenndri heilbrigðisstétt sé að bjóða þjónustu sem orkar tvímælis eða fellur utan verksviðs.

<< Til baka