01.12.17

Alþjóðlegur baráttudagur gegn HIV/alnæmi er í dag 1. desember

Sjá stærri mynd

Þrátt fyrir að það dragi úr fjölda nýrra sýkinga af völdum HIV á heimsvísu á það ekki við um Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið þar sem fjöldi nýrra sjúkdómstilfella stendur í stað. Ísland er þar engin undantekning (sjá mynd).

Að þessu sinni vekur Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sérstaka athygli á því að í 66% tilvika greinast HIV-sýkingar seint og skömmu áður en sjúkdómurinn þróast í lokastigið alnæmi. Að mati Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins tekur að meðaltali þrjú ár frá því að HIV-sýking verður þar til hún greinist sem er allt of langur tími. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af slíkum síðkomnum greiningum, í sumum tilfellum greinist HIV-sýking fyrst eftir að alnæmi hefur þróast, sjá Farsóttaskýrslu 2016.

Því fyrr sem HIV-sýking greinist þeim mun betra. Hægt er að hefja meðferð með lyfjum gegn veirunni og veita sýktum stuðning. Þannig gefst þeim sýktu möguleiki á að lifa löngu og heilbrigðu lífi. Á sama tíma leiðir virk meðferð til ómælanlegs magns af veirunni í líkama þess sem er sýktur og dregur mjög úr líkum á því að hann geti smitað aðra. 

Hvað er til ráða?

Efla forvarnir einkum með því að stuðla að notkun smokka við kynmök. Það gildir því að nota hann alltaf og nota hann rétt. Einnig hefur verið bent á að notkun lyfja gegn HIV í forvarnarskyni hjá þeim sem eru ósmitaðir en lifa áhættusömu kynlífi.

Auka mælingar á HIV-sýkingu í blóðprófum með því að hvetja fólk til að gangast undir slík próf. Á sama tíma ætti að kanna hvort viðkomandi sé haldinn smiti af lifrarbólgu C en það er alvarlegur sjúkdómur sem í flestum tilfellum er læknanlegur með lyfjameðferð.

Hægt er að fara í HIV-próf á göngudeild smitsjúkdóma og húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala eða á heilsugæslustöðvum landsins. Til að auðvelda aðgengi fólks að greiningu er skoðun, meðferð og eftirfylgni sjúkdómsins þeim að kostnaðarlausu.

Á Íslandi er starfshópur heilbrigðisráðherra að ljúka við tillögur um aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu kynsjúkdóma. Í þessum tillögum verður m.a. fjallað um bætt aðgengi að greiningarprófum, skimanir hjá áhættuhópum og aukna fræðslu um forvarnir.

Meðan engin lækning eða bólusetning er til við HIV er smokkurinn alltaf besta forvörnin.

Nánari upplýsingar um HIV er hægt að nálgast á vef Embættis landlæknis og einnig á vef HIV-Íslands.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka