27.11.17

Örugg saman-námsefni fyrir unglinga

Sjá stærri mynd

Nú stendur yfir 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem hófst þann 25. nóvember, á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum. Átakinu lýkur á Alþjóðlega mannréttindadeginum, 10. desember.

Það er ljóst af umfjöllun undanfarinna missera að í okkar samfélagi, sem á alþjóðavísu stendur þó einna best að vígi hvað varðar jafnrétti kynjanna, er enn umtalsvert verk að vinna. Auk þess að hlúa vel að þeim sem verða fyrir ofbeldi er mikilvægt að leggja áherslu á að koma í veg fyrir ofbeldi og allan þann skaða sem það getur valdið.

Mikilvægt er að hefja forvarnir snemma og leiðbeina ungu fólki um heilbrigð samskipti og mörk í nánum samböndum, Embætti landlæknis hefur í því skyni gefið út forvarnarefni um andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi í samböndum unglinga sem ætlað er til kennslu í efri bekkjum grunnskóla.

Námsefnið, sem ber heitið Örugg saman, (sjá kynningu um námsefnið) og byggir á gagnreyndum aðferðum og býðst skólum að kostnaðarlausu. Námsefnið hefur verið tilraunakennt í skólum og félagsmiðstöðvum hér á landi og verið vel tekið bæði af nemendum og kennurum.

Vonast er til að þetta námsefni verði tekið til kennslu í sem flestum grunnskólum á landinu. Er þetta fyrsta heildstæða námsefnið af þessu tagi á Íslandi og kærkomin viðbót við þau mikilvægu verkefni sem unnin hafa verið í tengslum við ofbeldi á undanförnum árum, bæði af opinberum aðilum og félagasamtökum.

Fyrirspurnum um efnið og hvernig megi nálgast það skal beint til Ingibjargar Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra Heilsueflandi grunnskóla.

Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi grunnskóla
Jenný Ingudóttir, verkefnisstjóri ofbeldisforvarna og Heilsueflandi leikskóla
Sigrún Daníelsdóttir, verkefnisstjóri geðræktar
Rafn M. Jónsson, verkefnisstjóri áfengis og vímuvarna

<< Til baka