16.11.17

Málþing um Heilsueflandi leikskóla 22. nóvember 2017

Embætti landlæknis stendur að málþingi um Heilsueflandi leikskóla,  í Borgum, sal safnaðarheimilis Kópavogskirkju, miðvikudaginn 22. nóvember kl.12.30-16.30.

Þar verður fjallað nánar í ákveðna áhersluþætti úr gátlistum Heilsueflandi leikskóla auk umfjöllunar um ýmislegt efni sem embættið býður upp á.

Málþingið er ætlað þeim sem starfa í leikskólum, þeim sem koma að leikskólasamfélaginu og þeim sem hafa áhuga á heilsuefingu í leikskólum.

Á dagskrá er stutt kynning um Heilsueflandi leikskóla auk erinda um hreyfingu, tannvernd, næringu og geðrækt í leikskólum. Erindin sjálf verða tekin upp og gerð aðgengileg á netinu. Að þeim loknum verða umræðuhópar þar sem tækifæri gefst til að ræða betur við fyrirlesara, koma sínum skoðunum á framfæri, heyra frá öðrum leikskólum og mynda tengsl.

Málþingið er þátttakendum að kostnaðarlausu en mikilvægt er að skrá sig til að tryggja þátttöku. 

Dagskrá

Skráning á viðburðinn.

Nú er rúmt ár frá því að opnað var fyrir skráningar í Heilsueflandi leikskóla. Á sama tíma var tekið í notkun uppfært kerfi heilsueflandi.is fyrir leikskóla og grunnskóla til að halda utan um sitt heilsueflingarstarf. Síðasta vetur fór embætti landlæknis með vinnustofur um Heilsueflandi samfélag um landið og var þar sérleg málstofa ætluð leikskólastiginu. Það var mjög ánægjulegt að upplifa áhugann og þátttöku fulltrúa leikskóla í þessum vinnustofum. Nú í janúar var haldið málþing í Mosfellsbæ þar sem auk kynningar um heilsueflandi leikskóla voru kynningar um núvitund í leikskóla, hreyfispjöld í leikskóla, tannvernd í leikskóla og heilsueflandi leikskóla í Mosfellsbæ.

Áfram er unnið að því að gera kerfið heilsueflandi.is sem þægilegast fyrir notendur og njótum við jafnan góðs af því að heyra frá þeim sem nota kerfið. Nú á haustmánuðum hefur verið unnið að því að prenta spjöld með merki Heilsueflandi leikskóla sem þátttökuleikskólar geta fengið til að hengja upp í sínum leikskóla. Nú rúmu ári eftir að opnað var fyrir umsóknir hafa yfir 50 leikskólar skráð sig og það er von okkar að fleiri leikskólar munu sjá sér hag í því að nýta þetta verkfæri sem Heilsueflandi leikskóli er til að vinna með þann grunnþátt aðalnámskrár sem snýr að heilbrigði og velferð.

Að þessu sinni mun áhersla málþingsins vera á efni og gátlista sem Embætti landlæknis leggur til og að gefa þátttakendum færi á að eiga umræðu ekki bara við sérfræðinga embættisins heldur ekki síst að leikskólar heyri hver frá öðrum hvernig er verið að vinna hlutina og hvað þeir eiga sammerkt í vinnu sinni og hvað ekki.

Jenný Ingudóttir
verkefnisstjóri

 

<< Til baka