15.11.17

Ávísanir tauga- og geðlyfja eftir búsetu á Íslandi

Í nýrri skýrslu Nomesco - „Health Statistics for the Nordic Countries 2017“  kemur fram að árið 2016 notuðu Íslendingar nærri 30% meira af tauga- og geðlyfjum en Svíar, sem koma næstir á eftir Íslandi. Sala tauga- og geðlyfja á Íslandi jókst um 3% frá 2015 til 2016.

Hér að neðan eru teknar saman upplýsingar um ávísanir helstu flokka tauga- og geðlyfja og ávísanir hvers flokks sundurliðaðar í átta landshluta fyrir árin 2012 til 2016. Notkunin er sýnd í skilgreindum dagskömmtum (DDD).

Verkjalyf

Verkjalyf eins og Parkodin forte, Contalgin, Oxycontin, Tramadól og Fentanyl eru flokkuð sem ávanabindandi lyf og ráp sjúklinga milli lækna og langtímanotkun þessara lyfja er vandamál. Árið 2016 fengu 37 einstaklingar ávísað ávanabindandi verkjalyfjum frá fleiri en 15 læknum og 35 sjúklingar fengu ávísað fimmföldum skammti eða meira hvern dag, alla daga ársins. Sala ávanabindandi verkjalyfja er tæplega 40% meiri hér á landi en hjá næstu Norðurlandaþjóð. Aukning hefur átt sér stað í ávísunum þessara verkjalyfja í öllum landshlutum frá árinu 2012 nema á Vestfjörðum en þar er notkun minnst á landsvísu. Læknar ávísa mest af ávanabindandi verkjalyfjum á íbúa á Norðurlandi og þá sérstaklega til þeirra sem búa á Hvammstanga til og með Siglufirði.

Flogaveikilyf

Flogaveikilyf (t.d. Lyrica og Gabapentin) eru flokkuð sem ávanabindandi lyf og ráp sjúklinga milli lækna og langtímanotkun þessara lyfja er vandamál. Árið 2016 fengu 19 einstaklingar ávísað flogaveikilyfjum frá 10 eða fleiri læknum og 44 sjúklingar fengu ávísað fimmföldum skammti eða meira hvern dag, alla daga ársins. Notkun flogaveikilyfja var mest í Finnlandi árið 2014 en 6% aukning hefur orðið í sölu lyfjanna á Íslandi frá 2014 til 2016 og er sala orðin mest hér á landi af Norðurlöndunum. Ávísanir flogaveikilyfja hafa aukist í öllum landshlutum, eru mestar á Norðurlandi en minnst er ávísað á Vestfjörðum.

Geðrofslyf

Geðrofslyf eru ekki ávanabindandi og því ætti ráp sjúklinga milli lækna ekki að vera vandamál. Árið 2016 fengu 10 einstaklingar ávísað geðrofslyfjum frá fleiri en 7 læknum og 16 sjúklingar fengu ávísað fjórföldum skammti eða meira. Geðrofslyf eru meira notuð í Finnlandi en á Íslandi en tæpleg 2% aukning hefur orðið í sölu þeirra hér á landi frá árinu 2014 til 2016. Mest er ávísað á einstaklinga sem búa á höfuðborgarsvæðinu en minnst á Austurlandi og Vestfjörðum.

Róandi og kvíðastillandi lyf

Róandi og kvíðastillandi lyf (t.d. Stesolid, Risolid, Sobril, Alprazolam og Mogadon) eru flokkuð sem ávanabindandi lyf og ráp sjúklinga milli lækna og langtímanotkun þessara lyfja er vandamál. Árið 2016 fengu 68 einstaklingar ávísað róandi og kvíðastillandi lyfjum frá 10 eða fleiri læknum og 23 sjúklingar fengu ávísað fimmföldum skammti eða meira hvern dag alla daga ársins. Róandi og kvíðastillandi lyf eru mest notuð á Íslandi af Norðurlöndunum en sala er 10% meiri hér á landi í samanburði viðnæstu þjóð. Lítil breyting hefur orðið í sölu frá 2014 en sjúklingar á Suðurnesjum fá mest ávísað á landsvísu. Minnst er ávísað af róandi og kvíðastillandi lyfjum á Austfjörðum og á Vesturlandi.

Svefnlyf og róandi lyf

Svefnlyf- og róandi lyf (t.d. Imovane og Stilnoct) eru flokkuð sem ávanabindandi lyf og ráp sjúklinga milli lækna og langtímanotkun þessara lyfja er vandamál. Árið 2016 fengu 110 einstaklingar ávísað svefn- og róandi lyfjum frá 10 eða fleiri læknum og 50 sjúklingar fengu ávísað fimmföldum skammti eða meira hvern dag, alla daga ársins. Svefnlyf eru mest notuð á Íslandi og er notkunin 22% hærri en hjá næstu Norðurlandaþjóð. Sala þeirra hefur verið að dragast saman hér á landi og ávísanir dragast saman í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum. Mesta notkun svefnlyfja hefur verið á Norðurlandi eystra.

Þunglyndislyf

Þunglyndislyf eru ekki ávanabindanandi og því ætti ráp sjúklinga á milli lækna ekki að vera vandamál. Árið 2016 fengu 17 einstaklingar ávísað þunglyndislyfjum frá 8 eða fleiri læknum og 99 sjúklingar fengu ávísað fimmföldum skammti eða meira hvern dag alla daga ársins. Notkun þunglyndislyfja er hæst á Íslandi miðað við OECD lönd. Samanborið við Norðurlöndin ernotkunin 25% hærri en hjá næstu þjóð og var yfir 8% aukning í sölu þunglyndislyfja frá 2014-2016. Aukning hefur átt sér stað í öllum landshlutum síðustu ár en mest er ávísað af þunglyndislyfjum á Norðurlandi eystra.

Örvandi lyf

Örvandi lyf (t.d. Rítalín Uno, Concerta, Medikinet og Amfetamin) eru flokkuð sem ávanabindandi en ráp sjúklinga á milli lækna hefur ekki verið vandamál. Hins vegar hefur verið vandi vegna greininga á ADHD og hárra skammta sem ávísað er á sjúklinga. Árið 2016 fengu 8 einstaklingar ávísað örvandi lyfjum eins og Rítalín frá 6 eða fleiri læknum og 31 sjúklingur fékk ávísað tvöföldum hámarksskammti (144 mg/dag) eða meira hvern dag, alla daga ársins. Ávísanir örvandi lyfja hafa aukist mest allra tauga- og geðlyfja á Íslandi síðustu ár eða um rúm 50% frá 2012 til 2016. Lyf við ADHD sjúkdómnum eins og Rítalín eru afgerandi hluti örvandi lyfja og voru ávísaðir dagskammtar þrefalt hærri hér á landi en hjá næstu Norðurlandaþjóð árið 2016. Mikill munur er á ávísunum milli landshluta en mest er ávísað til einstaklinga á Suðurnesjum en minnst á Vestfjörðum en það er líka eini landshlutinn þar sem aukning milli ára er lítil sem engin.

Samantekt

Ekki er dregið í efa að tauga- og geðlyf geri gagn og þau hjálpa fjölda sjúklinga að takast á við lífið. En sum lyf af þessum flokkum eru líka misnotuð af fíklum sem nota þau til að komast í vímu. Lyfjum með þessum eiginleikum þarf því að beita varlega og af skynsemi.

Notkun tauga- og geðlyfja er breytileg eftir búsetu á Íslandi. Fyrir flesta lyfjaflokka eru ávísanir til Vestfirðinga líkastar því sem gerist á hinum Norðurlöndunum en notkun tauga- og geðlyfja er mest á Norðurlandi.

Þrátt fyrir aðgang lækna á Íslandi að lyfjagagnagrunni er vandi vegna ávísana tauga- og geðlyfja að aukast. Mörg tauga- og geðlyf eru ávanabindandi og eitt af því sem nefnt hefur verið sem orsök fyrir mikilli notkun á Íslandi er að íslenskir læknar hafi ekki haft nauðsynlegar upplýsingar til að sporna við rápi skjólstæðinga sinna. Árið 2016 er fyrsta árið sem læknar höfðu aðgang að lyfjagagnagrunninum en það virðist ekki hafa haft mikil áhrif á heildarmagn ávísana ársins 2016.

Margir sjúklingar á Íslandi eiga við lyfjafíknivanda að stríða og hefur embættið verið að gera athugasemdir við ávísanir lækna sem ávísa óhóflega. Alls voru hafin ný mál vegna 35 lækna árið 2016 vegna lyfjaávísana, ásamt eldri málum sem voru enn til skoðunar. Í mörgum tilfellum er ekki hafið formlegt mál þegar talið er að óformleg samskipti dugi.

Nýjar leiðbeiningar um góða starfshætti lækna við ávísun lyfja sem Embætti landlæknis kynnti nýlega eru miðaðar að því að færa ávísanir ávanabindandi lyfja í betra horf en ljóst er að vandinn liggur að stórum hluta í ávísanavenjum lækna á Íslandi.


Lyfjateymi Embættis landlæknis

Magnús Jóhannsson læknir
Jón Pétur Einarsson lyfjafræðingur
Ólafur B. Einarsson sérfræðingur

Heimildir

Lyfjagagnagrunnur landlæknis.
2015 Health Statistics for the Nordic Countries.
2017 Health Statistics for the Nordic Countries.
Mannfjöldatölur frá Hagstofu.

<< Til baka