14.11.17

Góður árangur bólusetningar gegn leghálskrabbameini og forstigsbreytingum þess

Nýlega birti læknatímiritið Clinical Infectious Diseases uppgjör á rannsókn sem gerð var á Norðurlöndunum á áhrifum bólusetningar gegn leghálskrabbameini og forstigsbreytingum þess.

Bólusetning með bóluefninu Gardasil var gerð á 2.650 konum á Norðurlöndunum á árunum 2002–2003 og til samanburðar tóku álíka margar óbólusettar konur einnig þátt. Alls tóku 710 konur frá Íslandi þátt í rannsókninni.

Í 12 ára uppgjöri rannsóknarinnar kom í ljós að engin bólusett kona hafði greinst með leghálskrabbamein eða alvarlegar forstigsbreytingar af völdum þeirra veirutegunda sem bólusett var gegn (HPV 16/18). Þessi niðurstaða lofar góðu varðandi árangur bólusetningar hér á landi.

Á Íslandi hófst almenn bólusetning gegn leghálskrabbameini og forstigsbreytingum þess á árinu 2011 hjá 12 ára stúlkum. Hér á landi hefur bóluefnið Cervarix verið notað og hefur þátttakan verið með ágætum eða um 90%. Of snemmt er að segja til um árangurinn af þessari bólusetningu því nokkur ár þurfa að líða frá bólusetningu og þar til árangur verður merkjanlegur. Niðurstaða ofangreindrar rannsóknar og annarra erlendra rannsókna benda hins vegar ótvírætt til þess að bólusetning gegn HPV muni draga verulega úr líkum á leghálskrabbameini og alvarlegum forstigsbreytingum.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka