13.11.17

Vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja

Sjá stærri mynd

Í dag, mánudaginn 13. nóvember 2017 hefst þriðja vitundarvika Alþjóða-
heilbrigðismálastofnunarinnar
(WHO) um skynsamlega notkun sýklalyfja.

Auk þess mun Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) sérstaklega helga miðvikudaginn 15. nóvember þessari mikilvægu vitundarvakningu innan Evrópu.

Tilgangur þessarar vitundarvakningar er að minna einstaklinga og stjórnvöld á mikilvægi þess að nota sýklalyf skynsamlega og minna á þá ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Í ár er lögð áhersla á mikilvægi þess að koma í veg fyrir sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería á sjúkrahúsum m.a. með skynsamlegri notkun sýklalyfja og ýmsum sóttvarnaaðgerðum.

Á Íslandi er vel fylgst með notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum, og einnig með þróun sýklalyfjaónæmis. Hér á landi er sýklalyfjanotkun hjá mönnum hæst miðað við hin Norðurlöndin en er um miðbik ef miðað er við öll Evrópulöndin. Hins vegar er sýklalyfjanotkun hjá dýrum hér á landi áfram ein sú minnsta í Evrópu.

Sýklalyfjaónæmi er áfram almennt lægra hér á landi en í nálægum löndum og mikilvægt að viðhalda þeirri stöðu. Til að svo megi verða þurfa margir aðilar hér á landi að taka höndum saman m.a. með því að stuðla að bættri sýklalyfjanotkun hjá mönnum, halda sýklalyfjanotkun áfram í lágmarki hjá dýrum og efla eftirlit með bakteríum í ferskum matvörum.

Starfshópur heilbrigðisráðherra skilaði fyrr á þessu ári tillögum um aðgerðir sem miða að því að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi. Vonandi verður þessum aðgerðum hrint í framkvæmd á næstunni.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka