30.10.17

Svarti dauði á Madagaskar. Upplýsingar til ferðamanna sem leggja leið sína þangað.

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hefur vakið athygli á að hópsýkingar af völdum svarta dauða hafa gengið yfir á Madagaskar frá því í águst sl. Svarti dauði er alla jafna landlægur á Madagaskar og ber helst á kýlapest af völdum sjúkdómsins á tímabilinu frá september til apríl. Það sem er frábrugðið hópsýkingunum um þessar mundir er lungnapest sem verður vart á svæðum þar sem svarti dauði hefur ekki verið landlægur áður, einkum í þéttbýlum svæðum meðfram ströndinni.

Svarti dauði er smitsjúkdómur sem stafar af bakteríunni Yersinia pestis en hún getur fundist í litlum spendýrum og flóm þeirra. Menn geta sýkst verði þeir fyrir biti af völdum sýktra flóa, beinni snertingu við sýkt efni eða með því að anda að sér úða sem inniheldur bakteríuna.

Fyrstu einkenni veikinnar eru inflúensulík en breytast síðan hratt með mismunandi hætti allt eftir því hvar bakterían barst í líkama mannsins. Einkenni svarta dauða flokkast í kýlapest með bólgnum og aumum eitlum, lungnapest sem veldur alvarlegri lungnabólgu sem getur borist frá manni til manns með úðasmiti og svo blóðsýkingu.

Sýklalyf sem gefin eru snemma geta komið í veg fyrir sjúkdóm eða læknað hann. Án sýklalyfja eru lungnapest og blóðsýking nánast alltaf banvæn.

 

Ráðleggingar til ferðamanna
Áður en haldið er til Madagaskar og með tilliti til áfangastaðar og eðli ferðar er rétt að ráðfæra sig við lækni sem metur þörf á sýklalyfjum. Rétt er að hafa í huga að malaría er landlæg á Madagaskar og mælt er með fyrirbyggjandi meðferð gegn þeim sjúkdómi.

 

Fyrirbyggjandi aðgerðir eftir að komið er á svæði þar sem veikinnar hefur orðið vart.

  • Handþvottur með sápu eða handspritti.
  • Notkun skordýrafælandi áburðar (s.s. DEET 50%, píkaridín (icaridin), IR3535) til að bægja frá flóm.
  • Forðast snertingu við nagdýr, sjúk eða dauð dýr.
  • Forðast návist við fólk sem gæti verið sýkt af svarta dauða.
  • Forðast mannsöfnuð þar sem lungnapestar hefur orðið vart.

Fyrirbyggjandi aðgerðir eftir að hafa orðið fyrir hugsanlegu smiti
Leita skal læknis án tafar og leita ráða um fyrirbyggjandi sýklalyfjameðferð og eftirfylgni eftir að hafa verið í námunda við einstakling, sem þjáist af svarta dauða, fengið flóarbit eða verið í snertingu við líkamsvökva frá sýktu dýri.

Á varðbergi vegna einkenna
Á meðan á ferð stendur eða að henni lokinni skal leita læknis án tafar og upplýsa um ferðina ef eftirtalin einkenni gera vart við sig. Meðgöngutími kýlapestar er 2–6 dagar en lungnapestar er 1–3 dagar.

  • Skyndilegur hiti og hrollur.
  • Bólgnir og aumir eitlar.
  • Öndunarfæraeinkenni á borð við hósta, blóðblandaðan hráka og öndunarörðugleika.
  • Uppköst og ógleði.
  • Líkamsástand hrakar.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka