27.10.17

Ályktun Læknafélags Íslands byggð á misskilningi

Á aðalfundi Læknafélags Íslands þann 20. október sl. var samþykkt ályktun um að á hádegisfundi BSRB þann 9. október hafi landlæknir viðhaft órökstudd ummæli þess efnis að læknar í hlutastarfi á Landspítalanum og á stofum úti í bæ starfi ekki á spítalanum af heilum hug. Með þessum orðum hafi landlæknir vegið að starfsheiðri yfir 200 lækna og sakað þá um óheilindi gagnvart sjúklingum og vinnuveitenda.

Ályktun LÍ er á misskilningi byggð þar sem ekki er gerður greinarmunur á túlkun blaðamanns og orðum landlæknis. Það er fjarri lagi að landlæknir hafi sagt að læknar í hlutastörfum sinni ekki sjúklingum sínum af heilum hug. Má í því sambandi benda á úttektarskýrslur embættisins þar sem að jafnaði er getið um að á spítalanum starfi mjög hæft starfsfólk sem vinni einhuga að umönnun og meðferð sjúklinga.

Landlæknir hefur ítrekað talað um nauðsynleg forgangsverkefni í heilbrigðiskerfinu sem geta stuðlað að gæðum og skilvirkni þess. Meðal þeirra er efling sérfræðimönnunar á Landspítalanum og fækkun hlutastarfa þar. Forstjóri Landspítalans hefur einnig bent á að það sé almennt mikilvægt að sérfræðilæknar spítalans séu í fullu starfi eða því sem næst en 44% þeirra eru í hlutastarfi um þessar mundir.

Það er enn skoðun landlæknis að hlutastörf lækna af þeirri stærðargráðu sem um ræðir á LSH skapi vandamál við skipulagningu þjónustunnar og að starfsfólk í hlutastörfum, með fleiri en einn vinnuveitenda, eigi erfitt um vik að setja hagsmunamál aðalvinnuveitanda í forgang.

Landlæknir
Í kjölfar ályktunar

<< Til baka