25.10.17

Vaxandi notkun sterkra verkjalyfja á Íslandi

Frá árinu 2012 til 2016 fjölgaði ávísuðum dagskömmtum sterkra verkjalyfja (ópíóíða) um 11 % á Íslandi. Aukninguna má rekja til þess að hlutfallslega fleiri Íslendingar fá ávísað sterkum verkjalyfjum og margir fá stóra skammta.

Þetta er öfug þróun borið saman við það sem hefur átt sér stað í Noregi, Svíþjóð og Danmörku en á síðustu árum hefur dregið úr ávísunum sterkra verkjalyfja þar. Vegna þessarar þróunar er notkunin orðin mest hér á landi.

Sjá graf 1 sem sýnir skilgreinda dagskammta (DDD) sem ávísað er á hverja 1000 íbúa í löndunum.

Sterk verkjalyf (ópíóíðar) eru góð til að meðhöndla bráða verki í skamman tíma en sífellt fleiri rannsóknir sýna að vandi getur skapast við langvarandi notkun lyfjanna. Langtíma notkun sterkra verkjalyfja getur þannig skapað meiri vanda en henni er ætlað að leysa. Árið 2016 voru rúmlega 36 þúsund konur og 27 þúsund karlar sem leystu út sterk verkjalyf eða um 64 þúsund einstaklingar. Alls leystu 24,6% fullorðinna út sterk verkjalyf árið 2016 eða fjórðungur fullorðinna. Sama ár létust hér á landi 18 einstaklingar vegna ópíóíða eitrunar, 15 karlar og 3 konur.

Sérstaða Íslands meðal Norðurlandaþjóða liggur að mestu í ávísunum á Parkodin forte en í dagskömmtum talið er hlutfall kódeinlyfja í blöndum 62% af öllum sterkum verkjalyfjum. Fá önnur ávanabindandi lyf eru á markaði hér á landi sem sótt er eins mikið í. Margir einstaklingar eiga við fíknivanda að stríða vegna kódein-lyfja og reyna að fá lyfjunum ávísað frá mörgum læknum. Árið 2016 leystu 616 einstaklingar út slík lyf frá 7 eða fleiri læknum en þeir voru 554 árið 2015. Árið 2016 fengu 158 einstaklingar meira en tvöfaldan skammt af Parkodin forte hvern dag ársins en árið 2015 voru það 151 einstaklingur. Þetta jafngildir því að þessir einstaklingar taki meira en 6 töflur af Parkodin forte á dag alla daga ársins en það veldur þolmyndun og eykur líkur á frekari ávanabindingu. Flestir þeir einstaklingar sem fá ávísað frá mörgum læknum fá lyfin hjá læknum og tannlæknum sem nota ekki lyfjagagnagrunn landlæknis eða nota hann lítið.

Parkodin forte er eins og mörg ávanabindandi lyf, ekki ætlað þeim sem eru að stjórna vélum eða ökutækjum. Í ljósi þess hversu margir fá ávísað sterkum verkjalyfjum og ýmsum öðrum lyfjum sem verka á miðtaugakerfið er rétt að benda á að þessir einstaklingar þurfa að gæta að því að aka ekki undir áhrifum lyfjanna. Áhrif lyfja eins og Parkodin forte geta varað í margar klukkustundir eftir að þau eru tekin inn. Lyfið inniheldur kódein en áhrif þess koma fram um 20-30 mínútum eftir inntöku, ná hámarki eftir u.þ.b. 2 klukkustundir og vara 4 til 6 klukkustundir.

Magnús Jóhannsson læknir
Jón Pétur Einarsson lyfjafræðingur
Ólafur B. Einarsson sérfræðingur

 

<< Til baka