13.10.17

Tauga- og geðlyfjanotkun barna á Íslandi

Þegar ávísanir helstu geðlyfja meðal barna eru skoðaðar kemur í ljós að almennt eru fleiri börn á leik- og grunnskólaaldri sem fá ávísað tauga- og geðlyfjum á Íslandi samanborið við jafnaldra þeirra í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.

Ávísanir á börn á leikskólaaldri yngri en 5 ára

Á Íslandi fá fleiri einstaklingar yngri en 5 ára ávísað lyfjum af öllum flokkum geðlyfja, fyrir utan ADHD lyf hjá stúlkum. Nærri þrefalt fleiri drengir og stúlkur í þessum aldurshópi fá ávísað róandi og kvíðastillandi lyfjum á Íslandi samanborið við hin Norðurlöndin, sjá graf 1 og 2. Algengustu lyfin í flokki róandi og kvíðastillandi lyfja meðal barna eru lyfin Atarax og Stesolid, sjá töflu 1. Atarax er gefið við kláða og kvíða en Stesolid er gefið við t.d. hitakrömpum og kvíða. Tvöfalt fleiri drengir og fjórfalt fleiri stúlkur fá ávísað ópíóíðum (sterk verkjalyf) á Íslandi, algengustu ópíóíðar meðal barna á leikskólaaldri eru Parkodin og SEM-mixtúra en lyfin eru ekki ætluð börnum.
Það sem vekur eftirtekt er að talsvert er um ávísanir geðrofslyfja og þunglyndislyfja til barna á leikskólaaldri á Íslandi en sárafá börn fá þessi lyf í hinum löndunum.

Tafla 1: Fjöldi drengja 0 til 4 ára sem fær ávísað tauga- og geðlyfjum árið 2016 á Íslandi, Svíþjóð, Noregi og í Danmörku

Tafla 2: Fjöldi stúlkna 0 til 4 ára sem fær ávísað tauga- og geðlyfjum árið 2016 á Íslandi, Svíþjóð, Noregi og í Danmörku

Ávísanir á börn á grunnskólaaldri 5 til 9 ára

Hjá grunnskólabörnum sker Ísland sig meira úr frá jafnöldrum sínum í Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Talsvert fleiri grunnskólabörn fá ávísað tauga- og geðlyfjum hér á landi. Um tuttugufalt fleiri börn fá ávísað þunglyndislyfjum hér á landi, bæði meðal drengja og stúlkna. Þá fá þrettán sinnum fleiri drengir og átján sinnum fleiri stúlkur ávísað geðrofslyfjum á Íslandi borið saman við Svíþjóð, sjá graf 3 og 4. Notkun þunglyndislyfja og geðrofslyfja er nokkuð almenn hér á landi ólíkt hinum löndunum þar sem fá börn fá lyfin.

Tafla 3: Fjöldi drengja 5 til 9 ára sem fær ávísað tauga- og geðlyfjum árið 2016 á Íslandi, Svíþjóð, Noregi og í Danmörku

 

Tafla 4: Fjöldi stúlkna 5 til 9 ára sem fær ávísað tauga- og geðlyfjum árið 2016 á Íslandi, Svíþjóð, Noregi og í Danmörku

Embætti landlæknis hefur verið í samskiptum við lækna sem hafa fengið athugasemdir vegna ávísana þeirra til barna. Nýlega barst ábending frá leikskólastjóra þar sem hann lýsti áhyggjum yfir lyfjanotkun barna í skólanum og að lyfin gætu verið að valda því að þau væru sljó. Það sem vekur eftirtekt er að sum lyfjanna sem tilheyra þessum flokkum eru ekki ætluð börnum og geta beinlínis verið varasöm börnum. Má þar nefna sem dæmi ópíóíða sem meðal annars hefur verið ávísað á börn í mixtúru sem er á markaði hér á landi og hefur embættið varað við ávísunum ópíóíða á börn. SEM-mixtúra er ekki meðtalin í samanburðinum hér en um 20 börn í hvorum aldurshópi fengu ávísað SEM-mixtúru árið 2016. Þessar tölur sýna að endurskoða þarf ávísanir þessara lyfja til barna því samanburðurinn sýnir að munurinn milli landanna getur vart talist eðlilegur.

Algengustu geðlyf sem ávísað er á börn á Íslandi

Sjá gröf á pdf.

Lyfjateymi Embættis landlæknis
Magnús Jóhannsson læknir
Jón Pétur Einarsson lyfjafræðingur
Ólafur B. Einarsson sérfræðingur

Heimildir:

Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis
Reseptregisteret.no, Prevalens
Medstat.dk
Socialstyrelsen.se
Sérlyfjaskrá Lyfjastofnunar

 

<< Til baka