11.10.17

Meðganga og fæðing hjá konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum

Sjá stærri mynd

Agnes Gísladóttir, verkefnisstjóri á sviði heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis, varði doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands föstudaginn 29. september 2017.

Ritgerðin ber heitið: „Meðganga og fæðing hjá konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Pregnancy and childbirth among women previously exposed to sexual violence“.

Andmælendur voru dr. Berit Schei, prófessor við NTNU í Þrándheimi, og dr. Ólöf Ásta Ólafsdóttir, dósent í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Auk hennar sátu í doktorsnefnd dr. Berglind Guðmundsdóttir, dósent við sömu deild og yfirsálfræðingur á Landspítala, dr. Bernard L. Harlow, prófessor við Boston-háskóla, Ragnheiður I. Bjarnadóttir, sérfræðilæknir, og dr. Sven Cnattingius, prófessor við Karolinska Institutet.

Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnaði athöfninni.

Á myndinni hér fyrir ofan sést Agnes ásamt doktorsnefnd, forseta læknadeildar og andmælendum:  Fv. Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Berglind Guðmundsdóttir, Engilbert Sigurðsson, Berit Schei, Agnes, Ólöf Ásta, Unnur A. Valdimarsdóttir (leiðbeinandi) og Bernard Harlow. Myndirnar tók Kristinn Ingvarsson. 

Hér sést Agnes hægra megin fyrir miðju ásamt f.v. Engilbert Sigurðssyni, forseta læknadeildar, Berit Schei, andmælanda og Ólöfu Ástu Ólafsdóttur, andmælanda. Mynd Kristinn Ingvarsson.


Markmið doktorsverkefnisins

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin lítur á kynferðisofbeldi sem lýðheilsuvá á heimsvísu, en það er bæði algengt og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Markmið doktorsverkefnisins var að skoða hugsanlegt samband á milli kynferðisofbeldis á unglings- eða fullorðinsárum og áhættu á óæskilegum þáttum tengdum meðgöngu og fæðingu síðar á lífsleiðinni.

Rannsóknirnar byggja á samkeyrslu gagna. Í útsettum hópi voru konur sem höfðu leitað til Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis og að meðaltali sex árum síðar fætt barn. Í óútsettum hópi voru konur sem höfðu ekki leitað til Neyðarmóttökunnar og voru valdar af handahófi úr fæðingaskrá. Notast var við Poisson aðhvarfsgreiningu til að meta áhættuhlutfall (RR) með 95% öryggisbili (95% CI).

Útsettar konur voru yngri, síður á vinnumarkaði, síður í sambúð og reyktu oftar á meðgöngu (41.4% vs. 13.5%; aRR 2.59, 95% CI 2.19-3.07) en óútsettar konur. Samanborið við óútsettar konur voru útsettar konur í aukinni áhættu á að fá greiningarnar móðurnauð í hríðum og fæðingu (RR 1.68, 95% CI 1.01-2.79) og lengt fyrsta stig fæðingar (RR 1.40, 95% CI 1.03-1.88) og að beita þyrfti áhöldum eða bráðakeisaraskurði (RR 1.16, 95% CI 1.00-1.34). Nýburar útsettra mæðra voru léttari að meðaltali en nýburar óútsettra mæðra, í aukinni áhættu á að fæðast fyrir tímann og vera fluttir á vökudeild.

Niðurstöðurnar benda til þess að konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi reyki frekar á meðgöngu en óútsettar konur og séu í aukinni áhættu á lengri útvíkkunartíma, inngripum í fæðingu og fyrirburafæðingu. Flestar fæðingarnar gengu þó vel.

 

<< Til baka