10.10.17

Vellíðan í vinnunni – skólinn sem vinnustaður

Sjá stærri mynd

Geðheilsa á vinnustað er áhersluatriði Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins í ár. Það skiptir miklu máli að líða vel í vinnunni enda verjum við meiri tíma við störf okkar en nokkuð annað í daglegu lífi. Meðal þess sem hefur áhrif á starfstengda líðan eru tengsl við samstarfsfólk og yfirmenn, vinnuaðstæður, tilfinning um sjálfræði og stjórn yfir verkefnum, stuðningur og álag í starfi.

Embætti landlæknis leggur sérstaka áherslu á skóla í heilsueflingarstarfi sínu og styður leik-, grunn- og framhaldsskóla við að innleiða grunnþátt menntunar um heilbrigði og velferð í gegnum líkan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um Heilsueflandi skóla (e. Health Promoting Schools). Í þeirri nálgun er sjónum beint samhliða að líðan og heilsu nemenda og starfsfólks enda þarf að hlúa vel að báðum hópum til þess að heilsa, líðan og starfsaðstæður í skólum verði sem bestar.

Starfsaðstæður í skólum

Undanfarin misseri hafa starfsaðstæður og álag í starfi kennara verið talsvert í umræðunni en greint var frá því fyrir skömmu að kennarar væru áberandi í hópi þeirra sem leituðu til Virk starfsendurhæfingar og að fleiri kennarar glímdu við kvíða, andlegt álag og vefjagigt en nokkur annar háskólamenntaður hópur. Í pistli þar sem Guðríður Arnardóttir, formaður félags framhaldsskólakennara, fór yfir stöðuna nú í sumar fjallaði hún m.a. um skort á stuðningi í starfi kennara og þeirri upplifun að komast ekki yfir þau verkefni sem til er ætlast, en það eru dæmigerðar aðstæður sem valda álagi og auka hættu á kulnun í starfi. Ennfremur nefndi Guðríður að leikskólakennarar fengju ekki þann tíma sem þurfi til faglegs undirbúnings og að bæði grunn- og framhaldsskólakennurum sé í dag gert að takast á við sífellt fleiri verkefni án tillits til þess tíma, skipulags og stuðnings sem það krefjist.

Líðan kennara í starfi er málefni sem snertir allt samfélagið enda er þetta sú fagstétt sem við felum að mennta, þroska og efla komandi kynslóðir. Engin önnur fagstétt ver meiri tíma með æsku landsins allt frá tveggja ára aldri til tvítugs. Því er vert að velta fyrir sér hvaða uppvaxtaraðstæður við erum að búa börnunum okkar ef kennurum þeirra líður ekki vel í starfi?

Réttindi barna

Þessi umræða um álag í skólakerfinu hefur farið vaxandi í tengslum við innleiðingu skólastefnunnar um skóla án aðgreiningar. Þetta er opinber menntastefna hér á landi og undirstrikar grundvallarréttindi barna til náms og þroska óháð andlegu og líkamlegu atgervi. Hins vegar hefur verið bent á að talsverður misbrestur sé á því hversu vel innleiðing stefnunnar hefur heppnast. Í niðurstöðum úttektar Evrópumiðstöðvar um menntun án aðgreiningar, sem voru birtar í vor og náði til leik-, grunn- og framhaldsskólastiga, kom fram að flestir þeirra sem sinna menntamálum hér á landi, á hvaða skólastigi sem þeir starfa, telji núverandi tilhögun fjárveitinga og reglur um ráðstöfun fjár hvorki taka mið af jafnræðissjónarmiðum né hugmyndum um skilvirkni og styðji þar af leiðandi ekki nægilega við skóla án aðgreiningar. Einnig var talað um ófullnægjandi stuðning við starfsfólk skóla með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi.

Þessi nálgun kallar á breytt viðhorf og skipulag í skólastarfi. Öll börn eiga rétt á þeim stuðningi sem þau þurfa til að blómstra í námi og það kallar á þverfaglega samvinnu í skólum og við þær stofnanir sem sinna velferð og heilsu barna. Þetta er því miður oft ekki raunin í íslenskum skólum. Til dæmis var greint frá því á Menntakviku Háskóla Íslands í síðustu viku að rétt tæplega helmingur þeirra sem sinna sérkennslu í grunnskólum í Reykjavík séu menntaðir sérkennarar. Þá er ótalin sú staðreynd að alla jafna starfa stéttir eins og sálfræðingar, félagsráðgjafar og iðjuþjálfar ekki inni í skólum með nemendum og kennurum. Niðurstaðan er að bæði kennarar og nemendur líða fyrir álag og skort á stuðningi.

Í nýlegri rannsókn meðal tæplega hundrað umsjónarkennara og sérkennara á höfuðborgarsvæðinu kom fram að kennarar töldu einn af hverjum fjórum nemendum sýna erfiða hegðun en að stuðningur til þess að takast á við slíkan vanda kæmi helst frá öðru samstarfsfólki frekar en fagfólki sem hefur sérfræðiþekkingu á hegðunarvanda barna. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að hegðunarerfiðleikar nemenda séu það sem valdi starfsfólki grunnskóla hvað mestum áhyggjum og sé það sem kennurum finnist eitt það erfiðasta við starfið sitt. Í fyrrgreindri rannsókn fann allt að þriðjungur kennara fyrir einkennum tilfinningaþrots og rúmlega helmingur hafði íhugað að hætta kennslu vegna erfiðrar hegðunar nemenda. Hér er mikilvægt að átta sig á því að það eru ekki nemendurnir sem eru vandamálið heldur aðstæður í skólum. Nemendur sem eiga erfitt með hegðun, nám eða líðan þurfa stuðning og aðlögun á námsaðstæðum. Það að þeir fái ekki slíkan stuðning er skýrt brot á þeirra réttindum ásamt því að valda álagi fyrir kennara og starfsfólk skóla.

Hamingjusamari börn - hamingjusamari kennarar

Á þessum alþjóðlega degi geðheilbrigðis er því gott að staldra við þá hugsun að mannréttindi og vellíðan barna í skólum og velferð og líðan skólastarfsfólks í vinnunni eru samtvinnuð. Þegar við byggjum upp menntakerfið með vellíðan og réttindi barna í fyrirrúmi þá stuðlar það að bættum aðstæðum fólksins sem sinnir kennslu þeirra og umönnun. Það er jafnframt hollt fyrir okkur að horfa til þess að skólarnir eru vinnustaðir barna ekki síður en kennara. Þessir vinnustaðir ættu í ljósi þess dýrmæta viðfangsefnis sem þeir sinna, að vera þeir bestu í samfélaginu. Hér helst allt í hendur - hamingjusamari börn, hamingjusamari kennarar og aukin farsæld samfélagsins til framtíðar.

Geðheilbrigði verður til á þeim stöðum þar sem fólk lifir sínu daglega lífi – svo sem inni á heimilum, í skólum og á vinnustöðum. Það er verkefni alls samfélagsins að stuðla að því að aðstæður í daglegu lífi séu til þess fallnar að efla geðheilsu og vellíðan frá vöggu til grafar.

Sigrún Daníelsdóttir,
verkefnastjóri geðræktar

<< Til baka