09.10.17

Ný skýrsla um þjóðhagsleg áhrif tóbaksreykinga á Íslandi

Í nýrri skýrslu um þjóðhagsleg áhrif af völdum tóbaksreykinga á Íslandi kemur fram að kostnaður við tóbaksreykingar hér á landi er metinn á bilinu 13 til 90 milljarðar króna á ári. Lægri mörkin eru miðuð við að þeir sem reykja sé fullljóst hvaða áhætta stafar af reykingum, en efri mörkin miðast við að þeir geri sér enga grein fyrir áhættunni.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann skýrsluna fyrir Embætti landlæknis og er kostnaðurinn metinn m.a með svo kallaðri kostnaðar-/ábatagreiningu. Einnig er metinn fjöldi dauðsfalla vegna reykinga árið 2015.

Til samanburðar voru niðurstöður fjögurra annarra rannsókna um þjóðhagslegan kostnað reykinga einnig heimfærðar upp á Ísland fyrir árið 2015, en þær virðast vera í ágætu samræmi við niðurstöður þessarar skýrslu. Til að mynda áætlaðar Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (e. WHO) að þjóðhagslegur kostnaður vegna reykinga jafngildi 2,0% af vergri landsframleiðslu Vestur Evrópulanda. Sé kostnaður vegna reykinga á Íslandi árið 2015 metinn með þessum hætti mælist hann 46 milljarðar íslenskra króna á verðlagi ársins 2017.

Nánari upplýsingar um skýrsluna veitir Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, gsm 864 2755, netfang jonasatlig@gmail.com

Sjá skýrsluna Þjóðhagsleg áhrif reykinga á Íslandi

<< Til baka