02.10.17

Rannsóknin Heilsa og líðan Íslendinga lögð fyrir í fjórða sinn

Sjá stærri mynd

Embætti landlæknis stendur um þessar mundir fyrir viðamikilli rannsókn á heilsu og líðan landsmanna. Leitað verður til 10 þúsund Íslendinga á næstu dögum og þeir beðnir um að svara spurningalista þess efnis.

Meginmarkmið þessarar rannsóknar er að leggja mat á heilsu, líðan og lífsgæði Íslendinga, auk þess að mæla með reglubundnum hætti helstu áhrifaþætti heilbrigðis. Rannsóknin var fyrst framkvæmd árið 2007 og endurtekin árin 2009 og 2012. Þetta er því í fjórða sinn sem spurningalistinn Heilsa og líðan Íslendinga er lagður fyrir landsmenn.

Niðurstöður fyrri rannsókna hafa reynst dýrmætur efniviður sem nýttur hefur verið af embættinu, stjórnvöldum, háskólasamfélaginu og öðrum sem koma að mikilvægum ákvörðunum, aðgerðum og rannsóknum er varða heilsu og velferð landsmanna.

Það er ósk mín að þeir Íslendingar sem valist hafa til þátttöku í þetta sinn bregðist vel við og taki jákvætt í beiðni embættisins um að svara spurningalista. Með þátttöku fá landsmenn tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum til að auka þekkingu á heilsufari fullorðinna Íslendinga og um leið að efla lýðheilsu. Góð þátttaka eykur gildi rannsóknarinnar til muna og er framlag hvers og eins mikils virði og mikils metið.

Nánar um rannsóknina Heilsu og líðan Íslendinga.

Birgir Jakobsson,
landlæknir

<< Til baka