21.09.17

Aukin sýklalyfjanotkun hjá mönnum á Íslandi

Sóttvarnalæknir hefur nú gefið út árlega skýrslu um sýklalyfjanotkun hjá mönnum og dýrum á Íslandi fyrir árið 2016 ásamt faraldsfræði sýklalyfjaónæmra baktería.

Í skýrslunni kemur fram að sýklalyfjanotkun hjá mönnum jókst um 5% á árinu 2016 borið saman við árið 2015. Hins vegar hefur sýklalyfjanotkun hjá dýrum verið með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Þessar niðurstöður valda ákveðnum vonbrigðum því á sama tíma minnkaði sýklalyfjanotkun hjá mönnum á hinum Norðurlöndunum.

Athygli vekur vaxandi notkun sýklalyfja hjá börnum yngri en 5 ára og einstaklingum 65 ára og eldri en á undanförnum árum hafði notkunin minnkað hjá þessum aldurshópum.

Sýklalyfjaónæmi er áfram fremur lágt á Íslandi miðað við nágrannaþjóðir en hafði þó heldur aukist á árinu 2016.

Í apríl 2017 skilaði starfshópur heilbrigðisráðherra skýrslu um aðgerðir gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Starfshópurinn lagði fram tíu tillögur um úrbætur sem nauðsynlegar eru í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Þar á meðal voru tillögur um hvernig hægt væri að draga úr sýklalyfjanotkun hjá mönnum en óskynsamleg og mikil sýklalyfjanotkun er ein helsta ástæðan fyrir aukinni útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

Þessi skýrsla um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi mun vonandi reynast gagnleg í baráttunni við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og ljóst að hér á landi þarf að leggja í verulegt átak með læknum við að bæta notkun sýklalyfja. Einnig þarf að efla hér eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum í innlendum sem erlendum matvælum.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka