07.09.17

Dagur líffæragjafar og líffæraígræðslu er á laugardag

Sjá stærri mynd

Laugardagurinn 9. september er tileinkaður líffæragjöfum og líffæraígræðslum í Evrópu. Fjölmargar þjóðir sameinast um þetta átak sem hefur það að markmiði að hvetja einstaklinga til að taka afstöðu til líffæragjafar jafnframt því að miðla upplýsingum um líffæragjöf og ígræðslu.

Nú hafa rúmlega 32 þúsund Íslendingar tekið afstöðu tillíffæragjafar frá því að líffæragjafavefur Embættis landlæknis var tekinn í notkun í lok október 2014. Um 99% þeirra sem tekið hafa afstöðu samþykkja líffæragjöf. Smellið hér til að opna vefinn. 

Á vefsíðunni www.heilsuvera.is er einnig hægt að taka afstöðu til líffæragjafar auk þess að þar geta einstaklingar nálgast upplýsingar um virka lyfseðla í lyfseðlagátt, lyfjasögu sína síðustu 3 árin, bólusetningar, ofnæmi, bókað rafrænt tíma hjá heilsugæslu og óskað eftir lyfjaendurnýjun.

Fólk er hvatt til að taka afstöðu til líffæragjafar. Þar með léttir það erfiðum ákvörðunum af ástvinum sínum.

Við skráningu í grunninn getur fólk merkt við;

  • Líffæragjöf sem nær til allra líffæra.
  • Líffæragjöf sem takmarkast við ákveðin líffæri.
  • Að heimila ekki líffæragjöf. 

Ef fólk skiptir um skoðun getur það alltaf breytt vali sínu á þessu sama vefsvæði.

Um líffæragjöf:

Árangur af líffæraígræðslum er orðinn framúrskarandi góður. Stærsta vandamálið sem við glímum við í dag er skortur á líffærum til ígræðslu. Íslendingum sem gangast undir líffæraígræðslu hefur fjölgað undanfarin ár og eru þeir nú 15-20 á ári hverju. Til að mæta vaxandi þörf fyrir líffæri er brýnt að allir séu reiðubúnir til að gefa líffæri sín við andlát. Enn vantar nokkuð upp á að því markmiði verði náð og því er nauðsynlegt að auka umræðu og þekkingu á þessu mikilvæga málefni meðal almennings.

Ísland á aðild að líffærabanka norrænu ígræðslusamtakanna Scandiatransplant og fara ígræðslur líffæra úr látnum líffæragjöfum fram á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Líffæri sem gefin eru hérlendis eru flutt þangað.

Spurningar og svör um líffæragjöf á líffæragjafavef Embættis landlæknis 

Nánari upplýsingar og kynningarefni fyrir Dagur líffæragjafar og líffæraígræðslu í Evrópu:

Vefsíða Evrópuráðsins:

https://www.edqm.eu/en/events/european-day-organ-donation-and-transplantation og 
https://www.coe.int/en/web/human-rights-channel/organ-donation

Vefsíða Evrópska líffæragjafa og líffæraígræðsludagsins (e. EuropeanDay for Organ DonationandTransplantation (EODD)):
https://www.eodd2017.org/en/

NEWSLETTER TRANSPLANT, International figures on donation and transplantation 2015

<< Til baka