07.09.17

Mikil aukning í ávísunum þunglyndislyfja á ungmenni hér á landi

Algengustu þunglyndislyf á Íslandi eru sérhæfðir serótónín endurupptöku hemlar (SSRI) sem gefin eru t.d. við alvarlegum þunglyndislotum og til að fyrirbyggja endurkomu á alvarlegum þunglyndislotum. Þau eru einnig gefin við felmtursröskun, þráhyggju- árátturöskun, félagsfælni og áfallastreituröskun. Dæmi um SSRI lyf eru fluoxetín, cítalopram, paroxetín, sertralín og escítalópram.

Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil aukning í ávísunum þunglyndislyfja en notkunin hefur verið meiri hér á landi en í öllum öðrum löndum OECD. Notkun lyfjanna hefur verið mest meðal kvenna sem komnar eru yfir miðjan aldur en allra síðustu ár hefur átt sér stað veruleg aukning meðal yngri notenda.

Aukningu í ávísunum má rekja til aukningar í fjölda einstaklinga sem settir eru á lyf en mest aukning á notendum þunglyndislyfja meðal ungmenna er hjá stúlkum 15-19 ára. Samtals 85,7% fleiri stúlkur fengu ávísað lyfjum árið 2016 borið saman við árið 2012, sjá töflu 1. Svipaður fjöldi drengja og stúlkna á aldrinum 0 – 14 ára fær ávísað þunglyndislyfjum en frá 15 ára aldri er notkunin mun algengari hjá stúlkum.
Smellið hér til að stækka tölfræði.Tæplega 18% allra kvenna á aldrinum 25-29 ára fékk ávísað þunglyndislyfjum árið 2016 en til samanburðar er hlutfallið 9,7% hjá piltum. Aukning í fjölda sjúklinga útskýrir ekki ein og sér vöxt ávísana því 120,2% aukning er í fjölda dagskammta fyrir stúlkur á aldrinum 15-19 ára en aukning í fjölda notenda er 85,7% fyrir þennan sama hóp stúlkna sem bendir til þess að fleiri stúlkur séu hafðar lengur á lyfjum eða fái stærri skammta.

Sjá einnig Talnabrunn, Ágúst 2017 þar sem fjallað er um Geðheilbrigði ungs fólks á Íslandi.

Ólafur B. Einarsson sérfræðingur
Jón Pétur Einarsson, verkefnisstjóri
Magnús Jóhannsson læknir

<< Til baka