06.09.17

Vísbendingar um „oflækningar“ í heilbrigðisþjónustunni

Í nýrri skýrslu Embættis landlæknis um tíðni aðgerða í einkarekinni heilbrigðisþjónustu er rannsökuð tíðni fjögurra tegunda aðgerða hér á landi síðastliðin tíu ár, þ.e. ristilspeglanir, speglanir á hnjáliðum, rörísetning hjá börnum og hálskirtlatökur og niðurstöður bornar saman við aðgerðir sem framkvæmdar eru í nágrannalöndunum.

Hvati að könnuninni var skýrsla ráðgjafafyrirtækisins McKinsey sem birt var haustið 2016 þar sem kom fram að tíðni hálskirtlatöku á Íslandi væri u.þ.b. þrefalt hærri en í nágrannalöndunum. Nánast allar þessar aðgerðir eru gerðar af sérfræðingum á stofu og greitt er fyrir hverja aðgerð samkvæmt rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands sem sérgreinalæknar gerast aðilar að. Á þessu ári birtist enn fremur greinaflokkur í tímaritinu The Lancet sem fjallar um „rétta heilbrigðisþjónustu“ og hvernig beri að forðast ofnotkun á læknisverkum.

Niðurstöður könnunar Embættis landlæknis benda til að tíðni ofangreindra aðgerða sé mun hærri hér á landi en í nágrannalöndunum. Á sama tíma benda biðlistar hér á landi til þess að hér sé gert of lítið af aðgerðum sem fyrst og fremst eru gerðar á opinberum stofnunum. Því er ástæða til að ætla að fjöldi aðgerða tengist að einhverju leyti ólíkum greiðslukerfum í opinberri og einkarekinni þjónustu eins og bent var á í skýrslu McKinsey.

Sérstaklega er þetta umhugsunarvert þar sem raunútgjöld ríkisins til einkarekinnar þjónustu hafa aukist um 40% frá árinu 2010 meðan þau hafa dregist saman til opinberrar þjónustu um 10% samkvæmt nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Smellið hér til að opna: Könnun Embættis landlæknis á tíðni aðgerða í einkarekinni þjónustu 2007-2016 (PDF)


Landlæknir

<< Til baka