24.08.17

Magakveisa í Háaleitisskóla - Hvassaleiti í Reykjavík og Hörðuvallaskóla í Kópavogi

Á síðustu tveimur vikum hefur komið upp faraldur magakveisu meðal starfsmanna Háaleitisskóla - Hvassaleiti í Reykjavík og Hörðuvallaskóla í Kópavogi. Stór hluti starfsmanna í þessum tveimur skólum hefur veikst með magaóþægindum og niðurgangi sem varir í nokkra daga. Ekki hefur borið á ofangreindum veikindum meðal starfsmanna annarra skóla á höfuðborgarsvæðinu og þeir starfsmenn sem hafa veikst virðast ekki hafa smitað aðra í neinum mæli.

Rannsóknir á veikum einstaklingum hafa enn sem komið er ekki leitt í ljós sýkingarvald veikindanna og ekki er ljóst á þessari stundu hvernig einstaklingarnir smituðust en líklegt er að um matarsýkingu sé að ræða.

Á samráðsfundi sóttvarnalæknis með stjórnendum skólanna, heilbrigðiseftirlitum Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, umdæmis- og svæðislæknum sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu og Matvælastofnun var ákveðið að senda fleiri sýni í rannsóknir frá veikum einstaklingum og matvælum en þegar hefur verið gert. Veikum starfsmönnum verður ráðlagt að halda sig heima meðan niðurgangurinn gengur yfir og að auki í einn dag til viðbótar. Hvatt er til almenns hreinlætis og handþvottar og að farið sé eftir leiðbeiningum um meðferð matvæla. Ekki er talin hætta á að magakveisan breiðist út til nemenda og því ekki ástæða til að stöðva starfsemi skólanna á grunni sýkingarhættu.

Áfram verður fylgst náið með framgangi veikinda í þessum tveimur skólum og hvort faraldrar komi upp í öðrum skólum.


Sóttvarnalæknir vill vekja athygli á eftirfarandi útgefnum leiðbeiningum:

  1. Varnir gegn matarsýkingum og matareitrunum 
  2. Rannsóknir á matarbornum sjúkdómum 
  3. Almennar leiðbeiningar um sýkingavarnir
  4. Nokkur heilræði um meðferð grænmetis sem nota á í ferskt salat

Sóttvarnalæknir

<< Til baka