02.08.17

Lifrarbólga A greinist á Íslandi

Nýlega hafa tvö tilfelli af lifrarbólgu A greinst hjá ungum karlmönnum hér á landi. Bæði þessi tilvik tengjast lifrarbólgu A faraldri sem geisar í Evrópu meðal karlmanna sem hafa mök við karlmenn. Um þennan faraldur var fjallað um í frétt á vef Embættis landlæknis þann 29.6. s.l.

Lifrabólga A er yfirleitt hættulítill sjúkdómur sem lagast án meðferðar en getur í stöku tilfellum valdið alvarlegum lifrarskemmdum. Sjúkdómurinn greinist sjaldan á Íslandi um þessar mundir.

Lifrarbólga A smitast um munn með saurmenguðum mat eða vökva og engin meðferð er til við sjúkdómnum. Besta fyrirbyggjandi meðferðin við lifrarbólgu A er með bólusetningu auk þess að gæta að almennu hreinlæti við inntöku matar og vökva.

Sóttvarnalæknir hvetur alla sem eru mikið á ferðalögum erlendis og sérstaklega karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum að láta bólusetja sig.

Hægt er að fá bólusetningu gegn lifrarbólgu A t.d. á heilsugæslustöðvum. Til að fá bestu vörn þarf að gefa tvær sprautur með 6 mánaða millibili. Bólusetningin veitir vörn fyrir lífstíð.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka