07.07.17

Farsóttafréttir eru komnar út

 

Júlítölublað Farsóttafrétta, fréttabréfs sóttvarnalæknis, er komið út á vef Embættis landlæknis.

Í fréttabréfinu er birt samantekt á inflúensunni veturinn 2016–2017 og virkni bóluefnisins sem notað var haustið og veturinn 2016–2017.

Þá er einnig greint frá tillögum starfshóps til heilbrigðisráðherra um opinberar aðgerðir til að takmarka dreifingu sýklalyfjaónæmis. Vonandi verður ráðist í þær aðgerðir á næstunni. Hluti af þessum aðgerðum er átak um skynsamlega notkun sýklalyfja. Í fréttabréfinu er greint frá sameiginlegu verkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og sóttvarnalæknis um skynsamlega notkun sýklalyfja (STRAMA) sem ætlunin er að innleiða á önnur heilsugæslusvæði á landinu.

Eins og áður hefur verið greint frá þá varð mikil aukning á kynsjúkdómum á árinu 2016. Í fréttabréfinu kemur fram að þessi aukning heldur áfram á árinu 2017 einkum hvað varðar sárasótt. Vonir standa til að starfshópur um kynsjúkdóma sem stofnaður var á árinu muni skila tillögum til heilbrigðisráðherra um opinberar aðgerðir haustið 2017.

Í fréttabréfinu er einnig fjallað um heilsufarsáhrif mengunar frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík.

Lesa nánar: Farsóttafréttir. 10. árgangur. 3. tölublað. Júlí 2017 (PDF)

Sóttvarnalæknir

<< Til baka