07.07.17

Heilsueflandi samfélögum fjölgar

Sjá stærri mynd

Fimmtán sveitarfélög, þar sem búsettir eru 73% landsmanna, hafa nú skrifað undir samstarfssamning við Embætti landlæknis um Heilsueflandi samfélag. Sjá nánar um sveitarfélög sem taka þátt.

Heilsueflandi samfélag er heildræn nálgun sem Embætti landlæknis vinnur að í samstarfi við sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök o.fl.

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja sveitarfélög í að skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Mikilvægt er að tryggja virka þátttöku viðeigandi hagsmunaaðila, starfið byggi á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma og valdi ekki skaða. Gæta þarf að jöfnuði til heilsu með almennum aðgerðum og aðgerðum sem taka tillit til viðkvæmra hópa. Samfélagslegar breytingar taka tíma og til að starfið verði sjálfbært þarf að skipuleggja starfið til lengri tíma.

Frá haustinu 2016 hefur Embætti landlæknis gert samstarfssamninga við átta sveitarfélög um þátttöku í Heilsueflandi samfélagi en þau eru:

Bláskógabyggð - júní 2017
Skútustaðahreppur - júní 2017
Borgarbyggð - maí 2017
Fjarðabyggð - mars 2017
Fljótsdalshérað - mars 2017
Seyðisfjarðarkaupstaður - mars 2017
Hornarfjörður - október 2016
Reykjanesbær - október 2016


Sveitarfélög hafa sjálf frumkvæði að því að gerast Heilsueflandi samfélag og bera þau ábyrgð á heilsueflingarstarfinu. Hlutverk Embætti landlæknis er að styðja við starfið m.a. með gagnvirku vinnusvæði á vefnum, ráðgjöf, gátlistum og útgáfu lýðheilsuvísa fyrir heilbrigðisumdæmi. Aðgangsstýrt vinnusvæði, heilsueflandi.is, er notað til að halda utanum starfið, meta stöðu þess og framvindu. Heilsueflandi leik- og grunnskólar geta nú þegar unnið á vefsvæðinu og fljótlega verður það einnig aðgengilegt fyrir Heilsueflandi framhaldsskóla og samfélög.


Lýðheilsustefna og aðgerðaráætlun, var samþykkt af ráðherranefnd um samræmingu mála árið 2016. Eitt af meginmarkmiðum stefnunnar er að öll sveitarfélög verði Heilsueflandi samfélög, þar með taldir leik-, grunn- og framhaldsskólar og vinnustaðir.

Sjá nánari upplýsingar um Heilsueflandi samfélag á vef Embættis landlæknis.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri
Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri
Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri
Jenný Ingudóttir, verkefnisstjóri
Rafn M. Jónsson, verkefnisstjóri

<< Til baka