31.05.17

Dagur án tóbaks í dag, 31. maí 2017

Sjá stærri mynd

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) heldur hinn árlega alþjóðlega Dag án tóbaks, miðvikudaginn 31. maí. Þema dagsins að þessu sinni er tengt þeirri staðreynd að tóbak og tóbaksneysla ógnar lýðheilsu og framförum.

Í ár eru tíu ár síðan síðan bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum tók gildi hér á landi, eða þann 1. júní 2007. Tíðni daglegra reykinga fullorðinna hefur dregist saman um helming á þessum 10 árum. Árið 2007 mældist tíðni daglegra reykinga fullorðinna í kringum 20% en mælist í dag rúmlega 10%.

Árangur tóbaksvarna á Íslandi er góður og stefna stjórnvalda birtist meðal annars í aðild Íslands að Rammasamningi WHO um tóbaksvarnir og samþykkt Norðurlandaráðs um tóbakslaus Norðurlönd árið 2040. Ísland var árið 2016 í þriðja sæti meðal Evrópuþjóða í mælingum sem eru gerðar á framkvæmd sex lykilþátta til að ná niður neyslu tóbaks. Sjá rannsóknina "The tobacco control Scale 2016".

Samkvæmt greiningum á vægi einstakra þátta tóbaksvarna eru stjórnvaldsaðgerðir eins og verðstýring taldar vega þyngst. Árlega leiða tóbaksreykingar um það bil sex milljón einstaklinga í heiminum til dauða, þar af 650.000 í Evrópu. Hér á landi er áætlað að um 200 manns látist árlega vegna tóbaksreykinga.

Á heimsvísu er tóbaksnotkun helsta orsök dauðsfalla sem hægt er að koma í veg fyrir. Til að losna við fíknina í tóbak þarf að verða ákveðin hegðunarbreyting hjá viðkomandi einstaklingi. Hegðunarbreytingin gerist í fimm þrepum sem lýsa ólíkri afstöðu og viðhorfum og hvað er vænlegast til að hafa jákvæð áhrif á hegðunarbreytingu. Í hverju þrepi notar hver og einn mismunandi aðferðir við að færa sig yfir á næsta þrep.

Hægt er að fræðast nánar um fimm þrepa kerfi hegðunarbreytinga til að venja sig af tóbaksnotkun á vefnum Dagur án tóbaks.

Frekari upplýsingar um þema WHO fyrir Dag án tóbaks má finna hér: No tobacco day 2017.

Dagur án tóbaks var fyrst haldinn á Íslandi árið 1979 og hefur hann verið árlegur viðburður frá árinu 1987. Árið 2006 breyttist heiti dagsins í Dagur án tóbaks en áður var hann nefndur Reyklausi dagurinn. Þar sem neysla reyklauss tóbaks hefur vaxið undanfarin ár er nú talað um notkun á öllu tóbaki.

Írland var fyrsta landið til að taka upp á landsvísu bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum, árið 2004. Fordæmi þeirra vakti athygli um allan heim en Noregur fylgdi í kjölfarið sama ár og mörg lönd tóku upp sambærilegt bann í kjölfarið.


<< Til baka