18.05.17

Leiðrétting vegna umfjöllunnar um kannabis á Rás 2

Árið 2012 höfðu 6% Íslendinga á aldrinum 18–67 ára, einu sinni eða oftar, neytt kannabis en ekki 18% eins og komið hefur fram í fjölmiðlum.

Vegna umfjöllunnar þann 16. maí 2017, þar sem fullyrt er að 18% Íslendinga neyti kannabis, vill Embætti landlæknis koma á framfæri að þessi fullyrðing er byggð á misskilningi.

Rót misskilningsins er að finna í rangfærslum skýrslu World Drug Report sem gefin var út 2014 og Embætti landlæknis hefur áður leiðrétt. Þrátt fyrir það skýtur þessi misskilningur því miður upp kollinum með reglulegu millibili.

Í könnun sem Embætti landlæknis lét framkvæma í lok árs 2012 kom fram að 36% Íslendinga á aldrinum 18 til 65 ára höfðu einhvern tíma á lífsleiðinni prófað að neyta kannabis. Af þeim höfðu 18% notað kannabis á síðustu 12 mánuðum.

Þetta þýðir að rétt rúmlega 6% Íslendinga, 18 til 67 ára, höfðu einu sinni eða oftar neytt kannabis á umræddu tímabili, en ekki 18% eins og fram kom í umræddri frétt Morgunblaðsins.

Í ljósi þess að ofmat almennings á tíðni neyslu áfengis og/eða annarra vímuefna getur haft örvandi áhrif á heildarneyslu er mikilvægt að fjölmiðlar leiðrétti þessa frétt.

Sveinbjörn Kristjánsson verkefnisstjóri

<< Til baka