05.05.17

Lyfjanotkun Íslendinga og lyfjagagnagrunnur landlæknis

Talsverð umræða hefur verið í fjölmiðlum um lyfjanotkun Íslendinga og þá sérstaklega vegna þess að Íslendingar nota meira af flestum verkja- og geðlyfjum en nágrannaþjóðirnar. Þetta eru lyf eins og róandi- og kvíðastillandi lyf, svefnlyf, ópíóíðar (sterk verkjalyf), þunglyndislyf og örvandi lyf.

Í fréttum Stöðvar 2 var nýlega birt viðtal við sérfræðing sem hélt því fram að tölur úr lyfjagagnagrunni landlæknis, sem embættið hefur birt, séu ekki réttar og að notkun hér á landi sé ekki jafn mikil og haldið er fram.

NOMESCO, norræn nefnd um heilbrigðistölfræði, safnar árlega gögnum frá öllum Norðurlöndunum. Gögnin eru birt á vef nefndarinnar og eru þar á meðal tölur yfir lyfjanotkun. Í skýrslu nefndarinnar eru tölur um heildarsölu lyfja á Íslandi sem byggðar eru á sölutölum frá lyfjaframleiðendum. Samanburður á innflutningi lyfja og tölum yfir ávísanir úr lyfjagagnagrunni bendir til að ekkert sé athugavert við tölur úr lyfjagagnagrunni.

Í NOMESCO-skýrslunni sem kom út 2016 kom fram að notkun þunglyndislyfja á Íslandi hafi verið 129,6 dagskammtar á hverja 1000 íbúa hvern dag árið 2015. Sama ár var notkunin næstmest í Svíþjóð, 92,5 dagskammtar á hverja 1000 íbúa, sem þýðir að notkun þunglyndislyfja var 40% meiri á Íslandi en í Svíþjóð árið 2015.

Sölutölur stemma við tölur úr lyfjagagnagrunni en grunnurinn sýnir heldur lægri tölur, m.a. vegna þess að hann innheldur ekki notkun lyfja á sjúkrahúsum. Árið 2015 voru ávísaðir 126,4 dagskammtar þunglyndislyfja samkvæmt lyfjagagnagrunni á hverja 1000 íbúa og stemmir það ágætlega við sölutölur. Sama gildir um aðra flokka geðlyfja, lítill munur er á sölutölum og lyfjaávísunum samkvæmt lyfjagagnagrunni.

Í mars á þessu ári flettu 1016 læknar upp í lyfjagagnagrunni landlæknis. Vandamálið er hins vegar að notkun lyfjagagnagrunnsins þarf að vera mun meiri, bæði vantar upp á að allir læknar noti grunninn og eins mættu læknar vera virkari notendur.

Vandamál eins og t.d. ráp á milli lækna, sem aðgengi að grunninum átti að sporna við, er enn til staðar þrátt fyrir aðgang lækna að grunninum. Árið 2016 leystu 303 einstaklingar út ávanabindandi lyf frá fleiri en níu læknum en þeir voru 244 árið 2015. Árið 2016 leystu 2185 einstaklingar út ávanabindandi lyf í meira en 1000 dagskömmtum borið saman við 2037 árið 2015.

Hluti þessara talna á sér eðlilegar skýringar því að bæði er hópur einstaklinga sem hefur ekki fastan lækni og margir glíma við erfið veikindi. Stórir skammtar og margir notendur eru meginástæður þess að Ísland mælist með meiri notkun en aðrar þjóðir og eina leiðin til að sporna við því er að læknar taki á vandanum.

Það er því bagalegt þegar birtist frétt í fjölmiðlum um að læknar geti ekki treyst upplýsingum úr lyfjagagnagrunni landlæknis og að rangar upplýsingar í grunninum geti valdið sjúklingum skaða. Það er erfitt að gera sér grein fyrir hvað viðmælanda Stöðvar 2 gengur til þegar hann heldur þessu fram, en slíkar fréttir grafa undan trausti lækna á grunninum.

Almennt virðast læknar mjög ánægðir með lyfjagagnagrunninn sem gefur þeim betri yfirsýn auk þess sem þeir geta séð hvaða lyfjum aðrir læknar hafa ávísað á viðkomandi sjúkling.

Embætti landlæknis birti nýlega skjöl á vef sínum þar sem fjallað er um góða starfshætti lækna og vinnulag lyfjateymis sem miða að því að leiðbeina læknum um ávísanir ávanabindandi lyfja. Leiðbeiningarnar eru byggðar á vinnulagi sem þekkist m.a. á hinum Norðurlöndunum og eru liður í að koma ávísunum í betra horf, sjá: Leiðbeiningar um góða starfshætti lækna við ávísun lyfja og Verklag lyfjaeftirlits hjá Embætti landlæknis .  

Lyfjateymi landlæknis 5. maí 2017

 

<< Til baka