05.05.17

Baráttan gegn ónæmi sýklalyfja – er í þínum höndum

Sjá stærri mynd

Á hverju ári minnir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin starfsfólk í heilbrigðisþjónustu á að 5. maí er alþjóðlegi handþvottadagurinn.

Tækifærið er notað til að ræða handhreinsun í nýju ljósi því hún er lang mikilvægasta aðgerðin til að draga úr smiti á milli manna og sýkingavörn númer eitt, tvö og þrjú. Að þessu sinni hvetur stofnunin til handþvottar og sýkingavarna á heilbrigðisstofnunum í baráttunni við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Mikilvæg skref í þeirri baráttu er að fá heilbrigðisstarfsmenn til að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja og viðhafa rétta handhreinsun því þannig má draga úr dreifingu sýkla almennt. Það sama má segja um þrif í umhverfi. Ef vel er staðið að þrifum minnkar það líkurnar á að ónæmir sýklar berist milli manna.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur til:

  • að heilbrigðisstarfsfólk noti þekkingu sína til að viðhafa vandaða handhreinsun við störf sín
  • að yfirmenn í heilbrigðisstofnunum styðji vandaða handhreinsun og aðrar sýkingavarnaaðgerðir og þannig vernda sjúklinga gegn því að fá sýkingar af völdum ónæmra sýkla
  • að starfsmenn sýkingavarna efni til átaksverkefna innan sinna stofnana til að efla handhreinsun og finna leiðir til að virkja sem flesta til að ástunda grundvallarvarúð gegn sýkingum í störfum sínum
  • að stefnumótandi aðilar styðji við uppbyggingu og rekstur sýkingavarnastarfs á heilbrigðisstofnunum og sýni með því stuðning sinn við baráttuna gegn ónæmum sýklum.  

Alþjóðaheilbrigðismálatofnunin hefur undanfarin ár starfrækt verkefnin „Clean care is safer care" sem mætti þýða á íslensku sem „Hreinlæti og heilbrigðisþjónusta fara hönd í hönd" og „Save lives: Clean your hands" sem útleggja má „Þrífðu hendur þínar – bjargaðu mannslífum".

Boðið er upp á að fólk og stofnanir geti skráð sig til þátttöku í verkefnum sem miða að því að efla handhreinsun og sýkingavarnir og orðið þannig hluti af stóru netverki.

Öllum er frjálst að skrá sig og er það gert á vefsíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Á vef Embættis landlæknis má finna íterefni um handhreinsun, sjá vefsíðuna Handþvottur.

Sóttvarnalæknir

 

<< Til baka