07.04.17

Flensur og aðrar pestir – 13. vika 2017

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala
Frá því í lok nóvember 2016 hefur inflúensa A(H3) verið staðfest hjá 523 einstaklingum og inflúensa B hjá 8 einstaklingum, sjá töflu 1.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum
Enn dregur úr fjölda þeirra sem greinast með inflúensulík einkenni í heilsugæslunni eins og sjá má á mynd 1. Hægt er að skoða aldursdreifingu þeirra í töflu 2 frá 40. viku 2016 – 12. viku 2017 en þar kemur fram að tíðni inflúensulíkra einkenna er hlutfallslega algengust í aldurshópnum 15 – 19 ára.

Innlagnir á Landspítala
Frá því í byrjun september 2016 hefur alls 221 einstaklingur legið á Landspítala vegna inflúensu, þar af greindust 15 í síðustu viku (13. viku 2017) sem er lítilsháttar aukning borið saman við vikurnar á undan. Þrátt fyrir að inflúensulíkum tilfellum fari fækkandi í samfélaginu greinist hún enn og veldur stundum innlögnum á sjúkrahús.

Staðan á meginlandi Evrópu
Enn dregur úr inflúensufaraldrinum í flestum löndum á meginlandi Evrópu, sjá nánar á inflúensuvef Sóttvarnarstofnunar ESB (ECDC).

Samantekt og mat á inflúensunni síðastliðnar vikur
Mjög dregur úr inflúensunni um þessar mundir og má gera ráð fyrir að tilfellum fækki enn frekar á næstu vikum. Inflúensa A(H3N2) er sá stofn sem aðallega hefur verið í dreifingu. Enn er ekki farið að bera á inflúensu af B stofni svo heitið geti.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur
Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala greinast enn einstaklingar með staðfesta Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV) en hún hefur greinst hjá alls 196 einstaklingum frá því í byrjun október, sjá töflu 1. Börn á fyrsta og öðru aldursári greinast hlutfallslega oftast með RSV en veiran hefur einnig verið staðfest hjá öðrum aldurshópum, einkum meðal aldraðra, sem ásamt ungabörnum er þekktur áhættuhópur.

Meltingarfærasýkingar
Fjöldi tilkynninga frá heilsugæslunni og bráðamóttökum um niðurgang er eins og gera má ráð fyrir á þessum árstíma, sjá mynd 2.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka